150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla þó að gera athugasemd við þau orð hv. þingmanns að hér hafi orðið kúvending í stefnu stjórnvalda því að það er ekki rétt með farið. Þann 15. júní, þegar ráðist var í það verkefni að taka upp skimun á landamærum, var það byggt á ákveðinni aðferðafræði, að við vildum greiða fyrir umferð um landamærin samhliða því að gæta ýtrustu varúðar. Það gerðum við með því að taka upp skimun, sem var í raun og veru nokkuð sem mjög fáar aðrar þjóðir treystu sér í, en fannst það áhugaverð aðferðafræði. Ég tel, eins og ég sagði í svari mínu áðan við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, að það hafi gefist vel. Ég er ekki í nokkrum vafa, og gögnin sýna það, og við höfum byggt ákvarðanir okkar á gögnum fyrst og fremst, um að sú aðferðafræði kom í veg fyrir að fjöldi smita bærist inn til landsins. Eigi að síður var það svo að það komu inn smit. Og byggt á þeim gögnum og þeirri reynslu var tekin upp heimkomusmitgát 13. júlí, þ.e. fyrir Íslendinga og þá sem búsettir eru hérlendis voru teknar upp sérstakar reglur um tvær skimanir og heimkomusmitgát. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem tók gildi þann 19. ágúst, byggði að sjálfsögðu á þeirri reynslu og er algerlega ótækt að tala um kúvendingu í því efni því að þar má segja að við höfum tekið kerfið um heimkomusmitgátina og hert á þeim reglum með því að leggja til sóttkví og létum það ná til allra.

Síðan fylgir þeirri sögu, eins og ég kom sömuleiðis að í mínu fyrra svari, að við viljum meta stöðuna með reglubundnum hætti, á tveggja vikna fresti, hvort ástæða sé til að færa lönd af hááhættusvæðum yfir á lágáhættusvæði, sem er sömuleiðis sú aðferðafræði sem við höfum byggt á og einnig aðrar þjóðir, en er líka vandkvæðum háð. Hvernig ætla stjórnvöld að meta áhættuna af faraldrinum? Er það eingöngu út frá nýgengi smita? Er það út frá spítalainnlögnum, gjörgæsluinnlögnum og afleiðingum smita? Þetta er það mat sem (Forseti hringir.) við erum að vinna að núna eins og við höfum verið að vinna að hingað til. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður spyr um sviðsmyndir: Já, vissulega eru margir valkostir undir og meta þarf kosti og galla hvers og eins.