150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði beðið um andsvar í hliðarherbergi eins og mun nú vera siður og mun reyna að finna einhverja leið til að koma skilaboðum betur til skila síðar. En ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil þakka henni fyrir þann stuðning sem hún sýnir málinu. Það virtist ekki vera alveg augljóst, a.m.k. framan af ræðunni, hvort hv. þingmaður styddi málið en ljómandi að svo sé.

Ég get ekki tekið undir það með þingmanninum að við höfum ekki haft nógan tíma til að vinna málið. Ég held að við höfum einmitt tekið okkur ágætistíma og kannski lengri en var fyrirhugað í upphafi. Það er bara vel.

Ég vildi spyrja hv. þingmann sérstaklega um áhyggjur sem hún hefur af því að við ætlum að nýta úrræðið að hluta til á landsbyggðinni. Nú gætu, eins og textinn er skrifaður, 20% af upphæðinni runnið til íbúðakaupa á landsbyggðinni sem myndi þá þýða sirka 80 íbúðir á landsbyggðinni, sem væru, miðað við þær tölur sem hv. þingmaður kom fram með, einhvers staðar á bilinu 9–11% af íbúðaþörf á landsbyggðinni á hverjum tíma. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort þingmanninum finnist líklegt, ef landsbyggðin nýtti allar heimildir sínar samkvæmt breytingartillögunum, að það myndi raska húsnæðismarkaðnum á landsbyggðinni eins og hún lýsti því yfir að hún hefði áhyggjur af.