150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:03]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér það að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fullyrði eitthvað um mitt æviskeið hér, hvort ég hafi upplifað fátækt eða ekki. Hún á ekkert með að fullyrða eitthvað um mitt fjölskyldulíf eða fullyrða um það hverjar tekjur míns heimilis eru eða húsnæðismál. Ég vil ekki blanda því inn í umræðu um þetta mál. Ég frábið mér það að mér sé gert það upp að ég sé að taka þessa ákvörðun út frá mínu lífshlaupi. Það kemur ekki til greina að ræða þetta á þann veg, virðulegur forseti.

En til að svara þessu að öðru leyti vil ég segja að það eina sem viðkomandi þarf að gera er að óska eftir framlengingu og þá fær hann framlengingu óháð fjárhagsstöðu sinni. Það stendur hér skýrt þannig að þetta á ekki að skapa neitt óöryggi fyrir einn eða neinn. Þetta stafar bara af því að við einfölduðum málið og það var til að reyna að tryggja hag ríkissjóðs og annað. Ef tekjur viðkomandi hækkuðu umfram tekjumörk í frumvarpinu ætti viðkomandi að fara að borga vexti að þremur árum liðnum. Við tókum það út og settum í staðinn þessa kvöð um að viðkomandi þurfi að sækja um framlengingu óski hann þess, enda hafi hann þá farið í gegnum það hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hvort hann vilji endurfjármagna eða ekki. Það er enginn skyldugur til eins eða neins og það á enginn að þurfa að óttast það að missa þetta lán eftir 10 ár vilji hann hafa það til 25 ára og deila hagnaðinum með ríkissjóði.