150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er einmitt það sem getur verið heppilegt, þ.e. að búið er að stytta tímann. Það átti að endurskoða úrræðið að tíu árum liðnum en nú hefur það verið stytt til 1. júlí 2023, þannig að eftir tvö og hálft ár á að endurskoða það. Það er þá kannski einmitt í þeim tilgangi að athuga hvort mögulega hafi verktakar eftir sem áður kosið að byggja íbúðir og húsnæði þar sem byggingarkostnaður fer ekki langt yfir markaðsverð. Það er raunin núna, að markaðsverð á þessum köldu svæðum er því miður það lágt að það stendur ekki undir kostnaði við byggingarnar. Og þegar tekin er ákvörðun um að allt svæðið utan höfuðborgarsvæðisins lúti sömu lögmálum er það tiltölulega einfalt reikningsdæmi fyrir þann sem þekkir lögmálið um framboð og eftirspurn. Og lögmálið um að fari maður í framkvæmd ætli maður sem verktaki a.m.k. ekki að tapa á henni. Ég held að við hljótum að skilja þann hvata sem verið er að búa til fyrir verktaka, að þeir reisi frekar byggingar á svæðum þar sem líklegt er að þeir fái eitthvað fyrir sinn snúð en á köldum svæðum. En við skulum vona að það séu margir miskunnsamir samverjar þarna (Forseti hringir.) einhvers staðar og að þeir séu tilbúnir til að reisa líka byggingar (Forseti hringir.) á köldum svæðum.