150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held ekki að við eigum að treysta á einhverja miskunnsama samverja til að vinna það verk sem fram undan er. Ég reikna með að allir fái greitt fyrir verk sín, hvort sem verið er að endurgera eldra húsnæði eða annað, og koma því í það horf að það teljist hagkvæmt, sem gæti verið raunin víða um land. Ég held að menn sjái tækifæri til að gera það. Menn vita að þar er verið að kaupa húsnæði á allt öðru verði en raunvirði og geta þá tekið það í gegn og selt það. Byggingarverktakar fara eðlilega ekki út í framkvæmdir ef þeir sjá ekki hag sinn í því.

Ég held að í frumvarpinu felist möguleiki á að efla landsbyggðina og byggja þar upp fyrir lágtekjufólk, að það eignist sína fyrstu íbúð. Ég held að þetta gæti verið mikill hvati fyrir fólk til að setjast að á þessum stöðum og styrki yfir höfuð markaðsverð á húsnæði þar. Það hefur því miður verið allt of lágt og fjarri því að vera raunvirði. Ég held að það sé líka brýnt að lyfta upp verði á húsnæði á landsbyggðinni frá því sem það er svo það sé þokkalega raunverulegt, þó að það verði auðvitað aldrei það sama og á þenslusvæðum, eins og á höfuðborgarsvæðinu. En við skulum sjá hvernig þetta gengur. Ég hef trú á úrræðinu og ef við þurfum að endurskoða það, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, (Forseti hringir.) þá gerum við það.