150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fór áðan í ítarlegu máli yfir þær athugasemdir sem við í þingflokki Viðreisnar höfum við þetta ágæta mál, en markmið þess er mjög gott. Ég lýsti því síðan að við myndum styðja málið í trausti þess að þær tillögur yrðu teknar til endurskoðunar og málið yrði bætt enn frekar, vegna þess að við trúum því að ekki sé tjaldað til einnar nætur.

Ég verð hins vegar að nota tækifærið og lýsa yfir furðu minni vegna framgangs eins stjórnarþingmanns sem kemur hér upp í pontu, að því er virðist til að hæðast að því að stjórnarandstöðuþingmenn hafi verið að gagnrýna málið, rýna málið til gagns, koma með tillögur til úrbóta og lýsa því síðan yfir að þeir ætli að styðja það. Mér virðist augljóst að þingmenn stjórnarinnar hafi ekki fengið sama ákall ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuþingmenn fengu um að sýna samstöðu í málum sem varða almannahag á þessum erfiðu tímum. Þetta er einfaldlega merki um gamaldags, hallærislega pólitík sem ég vildi óska að ekki sæjust merki hér (Forseti hringir.) á meðan við vinnum að þessum málum. Viðreisn segir já. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )