151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Góðir áheyrendur. Saman kemst Ísland í gegnum afleiðingar Covid-19. Saman kemst heimurinn í gegnum þær. Það er nefnilega með þessa áskorun eins og allar þær allra stærstu, að hún kallar á samstillt átak okkar allra. Hér á þingi birtist þetta m.a. í því að ríkið, sem er bara við öll saman, axli sem mest af afleiðingum faraldursins frekar en einstaklingar. Þar þurfum við í þessum sal að gera miklu betur.

Þó að viðbrögðin við heimsfaraldrinum séu viðbrögð við tímabundnu neyðarástandi er mikilvægt að við horfum lengra fram á veginn og notum tækifærið til að leggja grunn að samfélagi framtíðar. Grænu og góðu samfélagi þar sem fjölbreytnin þrífst. Of margar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til fram að þessu viðhalda óbreyttu kerfi, hvort sem er varðandi ójöfnuð eða jafnrétti kynjanna og þá hefur allt of lítið borið á loftslagsáherslum í aðgerðum stjórnvalda.

Parísarsamningurinn gerir kröfu um að ríki auki metnað sinn í loftslagsmálum reglulega með tilliti til nýjustu vísindarannsókna. Og nú er komið að uppgjörsdegi. Norðmenn brugðust við þessu í vor með því að hækka markmið sín um samdrátt í losun úr 40% í 55%. Umhverfisráðherra Íslands lét hins vegar í vikunni hafa eftir sér að hér á landi myndu stjórnvöld setja markið hærra „á komandi árum“. Sameinuðu þjóðirnar ferðast oft á hraða snigilsins en þarna virðist Ísland ætla að fara enn hægar yfir. Parísarsamningurinn kallar eftir uppfærðum loftslagsmarkmiðum á þessu ári — ekki einhvern tímann á komandi árum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að Ísland geti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi með því að setja sér metnaðarfull loftslagsmarkmið. Meinti fólk þá að önnur lönd væru forsöngvarar og Ísland væri í bakröddunum?

Í haust, eins og allt of oft áður, lyfti almenningur grettistaki í þágu flóttafólks. Eftir mótmæli vegna máls egypskrar fjölskyldu opnuðust augu stjórnsýslunnar og málið hlaut farsælan endi. En kerfið þarf að laga. Því var gott að heyra forsætisráðherra nefna í ræðu sinni að aðferðafræði við mat á hagsmunum barna á flótta yrði endurskoðuð. Það er aldeilis ekki vanþörf á. Á sama tíma vekur það athygli að á þingmálaskrá vetrarins er enn og aftur frumvarp dómsmálaráðherra um að auka skilvirkni í afgreiðslu mála hælisleitenda. Frumvarp um að henda fólki hraðar úr landi.

Auðvitað er mikilvægt að fólk fái niðurstöðu sinna mála sem fyrst. Um það erum við öll sammála. En þegar almenningur hefur mótmælt í þágu flóttafólks er það ekki vegna þess að honum þyki kerfið óskilvirkt, heldur vegna þess að honum misbýður ómannúðlegir múrarnir sem hafa verið reistir um Ísland til að halda fólki úti. Börn á flótta eiga að fá að vera hér og dafna. En Ísland vantar líka hreinlega fleira fólk, innflytjendur af öllum gerðum.

Til að byggja upp Ísland framtíðarinnar þurfum við ekki múra við landamærin. Ísland er undirmannað. Áður en fámenni samfélagsins fer að verða okkur hamlandi ættum við miklu frekar að setja markmið um skynsamlegan vöxt með því að taka nýjum Íslendingum opnum örmum. Við gætum gert áætlun um það hvernig við náum því að vera milljón sem sköpum saman þetta samfélag hér á Íslandi. Væri það ekki frábært? Það væri áætlun um að fylla landið af nýjum tækifærum og ferskri sýn.