151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

einstaklingar sem vísa á úr landi.

[10:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Virðulegur forseti. Vakið hefur athygli svar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Morgunblaðsins um einstaklinga á skrá sem ekki hafa fundist þegar vísa átti þeim úr landi undanfarin tvö ár. Samkvæmt svari ríkislögreglustjóra er um 64 einstaklinga að ræða, hvort tveggja er að þetta eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og aðrir sem vísað hefur átt úr landi vegna ólöglegra dvalar á Íslandi. Þá hlýtur maður að spyrja: Eru það menn sem hafa orðið uppvísir að brotum eða eru það aðilar sem hafa verið lengur á landinu en dvalarleyfi þeirra leyfði? Það segir líka í svari embættisins, með leyfi forseta „að ekki sé hægt að segja til um nákvæmlega hve margir eru enn hér á landi en margir hafi yfirgefið landið, hugsanlega með fölsuðum skilríkjum“, sem þeir hafa þá væntanlega orðið sér úti um hér. Síðan segir: „Í einhverjum tilfellum hafa menn fundist hér á landi og þeim þá vísað úr landi.“

Maður hefur á tilfinningunni að þetta hafi væntanlega gerst þannig að lögreglan hafi verið að ganga niður Laugaveginn og rekist á einhverja slíka aðila, orðið áskynja um dvöl þeirra hér samkvæmt því og vísað þeim úr landi. En þetta er flóknara en svo vegna þess að þetta fólk þarf jú húsaskjól og mat til að komast af og maður veltir fyrir sér við hvaða kringumstæður og aðstæður þetta fólk dvelur hér.

Lögreglan virðist ekki hafa eftirlit með þessum hópi og það hefur flogið fyrir að hér á landi dveljist að staðaldri hópur fólks sem hefur komið hingað ólöglega, þá er ég ekki að tala um fólk í hælisleit eða slíku heldur aðra aðila. Í framhaldi af því verður maður að spyrja hæstv. ráðherra hvernig því eftirliti sé háttað og hvort í athugun sé að formbinda það eða auka með einhverjum hætti. Af þeim ástæðum sem ég hef rakið nú þegar (Forseti hringir.) — ég á 11 sekúndur eftir samkvæmt klukkunni — er full ástæða til að fylgjast með þessu grannt og gera ráðstafanir til þess að hér verði bragarbót á.

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að klukkunni er þannig háttað núna að hún bætir sjálfkrafa 25–30 sekúndum við hvern ræðumann, þannig að forseti er kurteislega að benda ræðumönnum á að nota ekki þann tíma til fulls.)