151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt hægt að segja um almannatryggingakerfi okkar en það er ekki hægt að halda því fram að það sé lélegt eða að það sé ekki sniðið að því að hjálpa þeim sem minnst hafa á milli handanna. Ég held að stundum væri ágætt fyrir fólk að ímynda sér að við hefðum ekkert almannatryggingakerfi, bara ekkert, og spyrja sig við þær aðstæður: Hverjum myndum við helst vilja hjálpa ef við ætluðum að byrja að byggja upp nýtt almannatryggingakerfi? Myndum við hjálpa fólkinu sem hefði þá nýlega fengið mikinn arf? Myndum við leggja það fólk til jafns við fólk sem engan arf hefði fengið? Ég held að við myndum fyrst hjálpa þeim sem hefðu engan arf fengið. Ég held að við myndum fyrst hjálpa þeim sem hefðu enga aðra tekjustrauma, hvorki atvinnutekjur, lífeyristekjur, fjármagnstekjur, húsaleigutekjur né neina aðra tekjustrauma. Ég held að við myndum fyrst teygja okkur til þess fólks. Það er það sem almannatryggingakerfi okkar í dag gerir.

Menn kalla það skerðingar þegar við látum það hafa áhrif að sumir hafa úr meiru að spila en aðrir. En það eru til fleiri hugtök yfir þá viðleitni og það er einfaldlega að stýra peningunum til þeirra sem minnst hafa. Svo getur fólk upplifað þetta allt saman sem mjög ósanngjarnt og vill fá meira út úr bótakerfunum. En einhver verður að standa undir þessu. Einhvers staðar verðum við að fá tekjur. Og í augnablikinu erum við að láta þessi kerfi virka af fullum þunga þrátt fyrir að ríkissjóður sé rekinn með 260 milljarða halla, tæplega 300 milljarða halla á yfirstandandi ári. Það stefnir í næstum 600 milljarða halla á næstu tveimur árum. Og menn segja að kerfin séu ósanngjörn. Ég segi: Við erum að leggja gríðarlega mikið á okkur til að verja þessi kerfi.