151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum í fyrri umr. um endurskoðun fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 og þar er fjallað um þróun tekna og gjalda eða afkomu og efnahag hins opinbera. Þetta er þingsályktunartillaga þar sem fram koma lykiltölur um afkomu og efnahag, sundurliðaðar fyrir A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja og svo allra þessara aðila í heild sinni.

Ég sagði það í umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár í gær að stærsti efnahagslegi óvissuþátturinn fyrir árið 2021 væri auðvitað veiran sjálf og afleiðingar þeirra viðbragða á sóttvarnasviði sem við neyðumst til að grípa til og þeirrar gífurlegu röskunar sem verður á lífi og starfi þegna okkar með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum.

Það blasir við í þessu plaggi sem horfir til lengri tíma en fjárlagafrumvarp næsta árs að við beitum ríkisfjármálunum af miklum krafti og einblínum á viðbrögðin við því ástandi sem við erum að kljást við. Við erum sammála um það, alla vega flest okkar, að það sé skynsamlegt við þessar kringumstæður að reka ríkissjóð með halla eins og hér er boðað með lækkandi tekjum ríkissjóðs, bæði með sjálfvirkum hætti og breytingum þar sem við gefum eftir skatttekjur í þeirri viðleitni að auka ráðstöfunargetu heimila og fyrirtækja. Auk þess horfum við til aukningar útgjalda til allra helstu málefnasviða með áherslu á velferð, fjárfestingar og nýsköpun. Það er mikilvægt við þessar kringumstæður að verja velferðarkerfið, þar með talið heilbrigðiskerfið.

Við höfum undanfarin ár byggt upp og aukið styrk ríkissjóðs með því að greiða niður skuldir og draga úr vaxtabyrði. Skuldsetning ríkissjóðs hefur minnkað um u.þ.b. helming á liðnum áratug. Það hefur veitt okkur efnahagslegan styrk og svigrúm til að mæta sveiflunni, þessu gríðarlega efnahagsáfalli, og draga úr högginu á heimili og fyrirtæki, verja velferðina og veita kröftuga viðspyrnu með sértækum aðgerðum.

Við sjáum nú hvað verðstöðugleiki er í raun og veru mikilvægur. Það er vandasamt að orða þetta, virðulegi forseti, en stundum finnst mér eins og orðið stöðugleiki sé farið að fela í sér einhverja neikvæða nálgun og verið að blanda saman stöðugleika og stöðnun. Hér er eitt gott dæmi um það hvað verðstöðugleiki er mikilvægur, sem okkur hefur auðnast að ná á liðnum árum, ella hefði ekki verið hægt að bregðast hratt við þessari stöðu og lækka vexti eins hratt og raun ber vitni. Á sama tíma höfum við byggt upp myndarlegan gjaldeyrisforða sem nýtist vel sem akkeri við þessar aðstæður sem allur heimurinn er að kljást við og kemur auðvitað fram í gengisáhrifum.

Þetta er jafnframt dæmi um það þegar fjármálastefna og peningastefna leggjast á sömu sveif eða vinna í takt, sem ekki hefur ávallt verið raunin. Það má segja að lög um opinber fjármál hafi við þessar kringumstæður sannað gildi sitt að þessu leyti og kannski því leyti sem við erum að horfa til hér, sem er kallað gjarnan hringrásarferli eða hið stefnumótandi ferli sem lögin eru. Það ferli hefur vissulega raskast eins og flest annað við þessar ótrúlegu aðstæður, en við fylgjum þó þessu stefnumótandi ferli: Stefna, áætlun, fjárlög. Fjármálastefnuna endurskoðum við í september þar sem markmið um opinber fjármál voru endurskoðuð vegna afleiðinga faraldursins eins og lögin heimila okkur þannig að við vorum beinlínis tilneydd til þess að endurskoða viðmið um afkomu og skuldir. Þar setjum við í raun gólf á afkomuna sem getur mest orðið á líðandi ári 14,5% og 13% inn á næsta ár. Gólfið sýnir í raun og veru þann veruleika sem við erum að kljást við. Þá er innbyggt óvissusvigrúm og sett eins konar þak á skuldir sem má verða allt að 64% af vergri landsframleiðslu.

Gangi sú spá eftir sem miðað er við í þessari áætlun inn á næsta ár, þ.e. spá Hagstofunnar um 3,9% hagvöxt, er metið að það taki um þrjú ár að ná fyrri styrk. Vægi samneyslunnar eykst við þessar aðstæður og fjárfesting er borin uppi að miklu leyti af hinu opinbera. Í þessu öllu saman er þó mikil óvissa og allar spár háðar gríðarlegri óvissu og því hafa verið teiknaðar upp dekkri sviðsmyndir. Um framvindu faraldursins í tíma getur enginn fullyrt, um alþjóðlega efnahagsþróun ríkir einnig óvissa og þar með utanríkisviðskipti, sem við erum mjög háð. Því má segja, herra forseti, að áætlunin endurspegli það að við þurfum að snúa við óumflýjanlegum hallarekstri þegar þar að kemur. Við horfum til þess að það taki okkur þrjú ár að ná fyrri framleiðslustyrk hagkerfisins. Ef svo fer verður það stærsta áskorunin okkar að koma böndum á eða stöðva þá skuldasöfnun sem fylgir hallarekstrinum sem við einblínum þó á núna og erum alveg sannfærð um að þurfi til að koma okkur í gegnum þetta. Þannig er ekkert hik á hæstv. ríkisstjórn að styðja efnahagslífið og styrkja fjárhagslega stöðu heimila og fyrirtækja til þess einmitt að koma í veg fyrir að framleiðsluverðmætin og störfin tapist með varanlegum hætti. Það er kannski mikilvægasta og stærsta áskorunin í þessu gríðarlega umfangsmikla plaggi.

Mjög ítarleg og góð greinargerð fylgir þingsályktunartillögunni og auðvitað ekki tími í þessari stuttu ræðu til að fara yfir það allt en verðmætt fyrir þá vinnu sem fram undan er í hv. fjárlaganefnd.

Það er óhjákvæmilegt til lengri tíma litið að takast á við þá ábyrgð sem felst í grunngildum laga um opinber fjármál um sjálfbærni og stöðugleika og við sendum ekki reikninginn á komandi kynslóðir. Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Ef við skoðum sjálfbærni, hvaða skuldahlutföll erum við að tala um? Við erum í raun og veru að taka fjármögnun opinberrar þjónustu að stórum hluta að láni hér á næsta ári og næstu ár, auk þeirra sértæku aðgerða sem við þurfum að grípa til í þeirri viðleitni að verja störf og efnahag heimila og fyrirtækja. Það er í raun og veru ekki til neitt algilt viðmið um hvar skuldahlutföll liggja þegar við tölum um sjálfbærni. Það getur verið mjög ólíkt á milli þjóða og fer m.a. eftir samsetningu framleiðsluþátta en einnig fjölmörgum öðrum þáttum. Þá ber að hafa í huga hverjar líkurnar eru á öðru efnahagsáfalli og hvað gæti verið langt í það. Því hærri sem líkurnar eru á öðru áfalli og því styttra sem talið er að það sé í það, því minni er skuldageta ríkissjóðs. Þessa verðum við alltaf að taka tillit til. Við verðum alltaf að vera í færum til að geta tekist á við svona áföll eins og við getum gert núna. Þá hafa vextir og skuldastýring auðvitað mikið að segja í þessu. Miðað við flesta mælikvarða erum við vel í færum og í stakk búin til að ráða við þá skuldsetningu sem við stöndum frammi fyrir. Það er þó mikilvægt að frumjöfnuður ríkissjóðs verði sem fyrst jákvæður og þess vegna, virðulegi forseti, einblínum við á það í þessari fjármálaáætlun að koma okkur (Forseti hringir.) í gegnum þetta og svo þegar hagkerfið hjarnar við að stöðva skuldasöfnun. Það er ábyrg fjármálastjórn.