151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja þessa umræðu um skerðingar sem við höfum auðvitað átt áður hér. Ég vil ítreka það sem ég sagði, kannski í heldur styttra máli, í gær. Það er alveg á hreinu að í upphafi þessa kjörtímabils var lagt af stað með vinnu í tengslum við örorkulífeyriskerfið. Forsagan er sú vinna sem lokið var hér 2016 þegar kemur að þeim hluta almannatrygginga sem snýr að öldruðum. Þar voru auðvitað samþykktar mjög miklar breytingar 2016 sem áttu að verða til þess að einfalda kerfið, sem áttu að verða til þess að draga úr skerðingum en skerðingar eru vissulega til staðar. Síðan má segja að nánast um leið og þær voru samþykktar hafi upphafist töluverð umræða um skerðingar þeim megin, hjá eldri borgurum, og niðurstaðan af þeirri umræðu varð að við hækkuðum frítekjumark vegna atvinnutekna en áfram er tiltölulega lágt frítekjumark vegna lífeyris- og fjármagnstekna.

Síðan var sett af stað vinna af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra hvað varðar örorkulífeyriskerfið og formaður þess starfshóps sem var starfandi, sem hv. þingmaður sat í, skilaði af sér fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári. Ég verð að segja að ég hefði að sjálfsögðu kosið að þessi starfshópur hefði lokið störfum í meiri sátt því að þegar maður skoðar tekjudreifingu þeirra sem fá örorkulífeyri þá eru alveg augljóslega víxlverkandi skerðingar milli bótaflokka sem gera það að verkum að kerfið er í senn ekki gagnsætt og getur orðið ósanngjarnt fyrir þá sem reiða sig á það. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um að við þurfum endurskoðun á þessu kerfi. (Forseti hringir.) Í þetta voru ætlaðir tilteknir fjármunir og ég ætla að koma aðeins nánar að því á eftir.