151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Svo ég ljúki því sem ég vildi sagt hafa áðan um almannatryggingakerfið þá vil ég segja að í upphafi þessa kjörtímabils voru eyrnamerktir 4 milljarðar til breytinga og 2,9 milljörðum var varið hér með samþykkt Alþingis vegna tillögu félagsmálaráðherra um að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega. Enn þá er óráðstafað því sem eftir stóð þar, svo að ég nefni það. En ég held hins vegar að það skipti alveg gríðarlegu máli að við komumst í það að eiga samtalið um þær tillögur sem voru á borði starfshópsins sem hv. þingmaður sat í. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um það að við verðum að fara að nálgast þetta kerfislægt, þ.e. að horfa á kerfið eins og það er uppbyggt. Við erum sammála um að það er ógagnsætt. Við erum sammála um að það er flókið í útfærslu og þá verðum við einfaldlega að geta tekið umræðuna á vettvangi þingsins um hvernig við viljum sjá örorkulífeyriskerfið byggt upp. Við verðum að fara að vinna úr þeim tillögum sem starfshópurinn vann úr.

Hvað varðar geðheilbrigðismálin þá nefnir hv. þingmaður 540 milljónir sem eru sérstaklega ætlaðar á þessu ári. Það er auðvitað ekki aukningin til geðheilbrigðismála á kjörtímabilinu. Hún hefur verið miklu meiri. Það hefur verið sérstakt forgangsmál hæstv. heilbrigðisráðherra að efla geðheilbrigðismálin, enda þörfin mikil á því sviði. Ég tel nú, af því að hv. þingmaður lýsir áhyggjum af þessu, að þar hafi verið ráðist í verulega uppbyggingu með stórauknu aðgengi að m.a. sálfræðiþjónustu um land allt en líka að þjónustu geðlækna. Það tekur að sjálfsögðu tíma að byggja þetta upp en ég tel að við höfum verið á hárréttri leið í því. Þetta rímar fullkomlega við þá áherslu sem við leggjum á velsæld í fjármálaáætlun.