151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að menn velti því fyrir sér hvort hægt sé að hefja skattlagningu á inngreiðslum eða taka jafnvel til ríkisins geymdan skatt sem liggur inni í lífeyriskerfinu. Þessar hugmyndir voru reifaðar fyrir um tíu árum og við tefldum þeim fram til mótvægis við þá aðferðafræði sem þá var keyrð og fólst í því að hækka töluvert skatta á þeim tíma, eftir fall fjármálakerfisins. En við komumst út úr ástandinu þá án þess að fara þá leið. Ég held að við eigum að leggja á okkur að gera það sömuleiðis núna. Ég tel að við höfum hér fyrir framan okkur mjög trúverðuga áætlun út úr stöðunni.

Það er kannski tvennt sem ég myndi vilja nefna í því samhengi. Í fyrsta lagi að þjóðin er að eldast og við verðum langlífari með hverju árinu. Við munum aldrei hafa séð jafn stóra árganga af eldri borgurum, fólki á eftirlaunaaldri, eins og blasir við eftir nokkur ár. Sú þróun mun halda áfram ár eftir ár og þetta er að gerast tiltölulega hratt. Það að þjóðin sé að eldast er ákveðið áhyggjuefni fyrir ríkisfjármálin. Það mun kosta okkur mun meira að sinna þessu fólki. Þá mun það reynast okkur vel að eiga inni skatttekjur vegna úttektar á lífeyristekjum.

Hv. þingmaður talaði um að við ættum kannski að gera þetta bara tímabundið. Ég held að það sé eiginlega alveg útilokað að gera þetta tímabundið. Ég held að við þurfum annaðhvort að ákveða að leysa til okkar allar skatttekjurnar og hefja skattlagningu á inngreiðslum eða ekki. Það væri mjög erfitt að stíga skrefið tímabundið og bakka svo aftur í gamla kerfið.