151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og vangaveltur. Ríkisstjórnin er að auka um framlög til endurhæfingarmála um 1,5 milljarða. Ég mun skoða þær ábendingar sem hv. þingmaður var með um samspil náms og endurhæfingar. Reynsla mín hefur verið sú að það er margt sem virðist mjög óréttlátt — og ég er ekki að svara því að það sé ekki mögulegt sem hv. þingmaður er að segja — þegar það er skoðað út frá einhverjum ákveðnum vinkli en þegar er hins vegar farið að skoða það betur þá eru einhver önnur rök fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru. Um leið og ég segi að það sé ekki útilokað að þetta sé mögulegt þá kann að vera að einhver önnur rök búi að baki og það viðurkennist hér að hæstv. ráðherra er ekki með þau alveg í handraðanum. En ábendingin er komin til skila og við munum skoða það.

Ég held við séum öll sammála um mikilvægi þess að endurhæfing sé þannig að fólk komist aftur af stað. Við viljum að fólk komist aftur í gang og mikilvægur hluti af því er að geta endurmenntað sig, jafnvel í öðrum starfsgreinum og öðrum sviðum sem viðkomandi getur sinnt þrátt fyrir skerta starfsgetu og getur þar af leiðandi orðið góður og gegn þjóðfélagsþegn og orðið skattgreiðandi en ekki lent á örorku eins og við erum að sjá í allt of miklum mæli. Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að það þarf sveigjanleika þarna og við munum skoða þetta.