151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veltir fyrir sér prósentunum. Ég ætla að byrja á að svara seinni spurningunni um rétta framfærslu. Ég geri ekki lítið úr því að sá sem er á strípuðum bótum við þær aðstæður sem eru í íslensku samfélagi hefur ekki mörg tækifæri til að framfleyta sér. Ég tala nú ekki um ef sá hinn sami er með börn á framfæri eða er á leigumarkaði o.s.frv.

Að þessu sögðu vil ég segja að það blasir við, og ég hef rakið það hér, að fjármagn til málaflokksins í heild sinni hefur verið að aukast mjög mikið á síðustu árum. Langstærstur hluti örorkumálefna fatlaðs fólks eru greiðslur til örorkulífeyrisþega en þær greiðslur hafa vaxið frá árinu 2018. Þá runnu rúmir 60 milljarðar til málaflokksins. Samkvæmt áætlun næsta árs er gert ráð fyrir að talan verði komið upp í 80 milljarða. Þar er 20 milljarða aukning. Og í tímaáætluninni er gert ráð fyrir að hún fari upp í 86 milljarða og hafi þá aukist um 25 milljarða á þessum sjö árum.

Tölurnar eru áhyggjuefni og það er ástæðan fyrir því að við höfum haft mikinn áhuga á því, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það, að reyna að ráðast í aðgerðir til að draga úr nýgengi örorku. Þegar milljarðarnir eru skoðaðir þá kaupir ekki hver og einn einstaklingur eitthvað fyrir það sem fer í heildarútgjöld til málaflokksins. En fjölgunin sem er að verða (Forseti hringir.) gerir það að verkum að (Forseti hringir.) sérhver lítil aukning hækkar heildarsummuna svo rosalega mikið til framtíðar ef við náum ekki að draga úr nýgengi, (Forseti hringir.) og þá sérstaklega hjá ungu fólki.