151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég er ögn upptekinn af 19. kafla í fjármálaáætlun sem er um fjölmiðlun. Í tillögunni er að sjá að framlög til Ríkisútvarpsins verði lækkuð um 300 millj. kr. en þess í stað verði sett á skattahækkun því að útvarpsgjaldið verður hækkað um 270 millj. kr. Eins og allir vita er þetta nauðungaráskrift sem allir verða að borga, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að gera einfaldlega hagræðingarkröfu á fyrirtækið sem hefur 5 milljarða á fjárlögum, rétt tæpa, til að reka sig og það sem upp á vantar er sótt í vasa landsmanna. Mig langaði til að spyrja ráðherra um þetta.

Einnig kemur fram að greiða eigi aftur til svokallaðra frjálsra fjölmiðla um 400 millj. kr. eins og gert var á þessu ári en megn óánægja virðist vera með það hvernig staðið var að þeirri úthlutun sem var gerð með einfaldri reglugerð, ef ég man rétt. Mig langar einnig að spyrja ráðherra hvort til standi á nýju ári að breyta úthlutunarreglum með einhverju móti þannig að meira gagnsæi verði í því máli og betur hægt að fóta sig, fyrir þá sem sækja um, í því hvernig niðurstaðan er fengin.