151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek mjög undir þau orð hæstv. menntamálaráðherra hér í byrjun að mikilvægt er að skólakerfið standi nú opið þeim sem geta nýtt tímann og ekki hafa atvinnu til að sækja sér nám. En það er líka gríðarlega mikilvægt, þegar við ræðum skólamál, að alltaf sé horft til langs tíma. Þess vegna fagna ég að sjálfsögðu þeim áherslum sem hér eru undir, þar sem fram kemur að við séum að auka framlög og ætlum okkur að standa við markmiðið um að komast upp að hlið hinna Norðurlandanna á næstu árum og höfum þegar náð OECD-meðaltalinu.

Í umfjöllun um háskóla og rannsóknastarfsemi er líka fjallað um skýrslu, Ísland og fjórða iðnbyltingin, sem forsætisráðuneytið gaf út á síðasta ári. Þar segir að menntakerfi og rannsóknir muni gegna lykilhlutverki við að hagnýta og móta tækninýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar og stuðla að jákvæðum áhrifum þeirra á lífsgæði og velferð almennings. Og svo áfram, að háskólar hafi hlutverki að gegna hvað varðar loftslagsbreytingar og allt það.

Þessu er ég að sjálfsögðu hjartanlega sammála. En ég ætla að spyrja þá sértækt þessu tengt. Annars vegar skrifaði hæstv. menntamálaráðherra undir samning um háskólaútibú á Austurlandi á dögunum hverju ég fagna mjög. En ég varð aðeins að leita, bæði í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni, að því hvort þau áform væru þegar fjármögnuð, en sé ekki að svo sé, þó að þeirra sé getið í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Í öðru lagi spyr ég, og því nátengt, um tækninám við Háskólann á Akureyri. Háskólinn á Akureyri hefur að undanförnu sótt á um það að fá viðurkenningu sem slíkur þannig að hann geti bæst í þá flóru. Það mál steinliggur að mínu mati og passar algerlega við þær áherslur að bæta aðgengi að háskólamenntun í tækni- og verkgreinum. Á Akureyri er einn stærsti og öflugasti verkmenntaskóli landsins. Og á upptökusvæði Háskólans á Akureyri er Verkmenntaskólinn á Austurlandi í Neskaupstað, og öflugur fjölbrautaskóli á Sauðárkróki, þannig að ég er algerlega sannfærður um (Forseti hringir.) að eitt allra skynsamlegasta sem stjórnvöld gerðu núna, einmitt til að standa við þessi markmið um að efla tækninámið og verknámið, væri að opna aðgengi að slíku námi á landsbyggðinni, á Akureyri, og láta Háskólann á Akureyri fóstra þetta háskólaútibú á Austurlandi.