151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að efla allt sem tengist menntun, rannsóknum og nýsköpun. Af hverju viljum við gera það? Vegna þess að við teljum að stærsta hreyfiafl til framtíðarinnar sé aukin menntun. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að Háskólinn á Akureyri sinni þessu hlutverki þegar við erum að stofna til útibús á Austurlandi er varðar tækninám. Við höfum á milli ára fjármagnað undirbúninginn að þessu námi og svo höfum við í hyggju, þar sem við höfum verið að auka verulega fjármuni til háskólastigsins, að hluti af þeim fjármunum fari í að styrkja stoðir þessa útibús og tæknináms á Austurlandi og rýmið sé þannig, þegar við erum að skoða ríkisfjármálaáætlunina, að svo megi vera. Þannig ætlum við að fjármagna þetta.

Ég er líka algerlega sammála því að ef við ætlum að auka sveigjanleika og styrkja útflutningsstoðir okkar þá sé langbest að veðja á fjárfestingu í menntun, í nýsköpun og í rannsóknum. Það sjá allir að við erum að auka verulega inn í Innviðasjóð, inn í allt sem tengist rannsóknum. Ég er sannfærð um að það sem við erum að gera núna muni svo sannarlega skila sér í betri framtíð fyrir Ísland og að við verðum enn öflugri en ella hefði orðið.