151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að við styðjum mun betur við námsframvindu drengja. Ég vildi aðeins fara betur út í það sem við erum að gera með því til að mynda að efla lesskilning. Við erum með þessi lesfimipróf sem mæla hver framgangur barna hefur verið frá fyrsta og upp í tíunda bekk. Þetta er einn liður í því að átta sig betur á stöðunni og grípa þá fyrr inn í og efla lestrarfærni drengja og stúlkna. Við erum komin með ákveðin tæki og tól sem við höfðum ekki áður en það dugar ekki til og við þurfum að gera mun betur. Við þurfum til að mynda að setja fjármuni í það að styðja betur við námsgagnagerð, þ.e. að búa til námsefni sem höfðar til beggja kynja, og huga betur að áhugasviði drengja. Hvers vegna hafa þeir minni áhuga á sumu sem er að gerast innan skólaveggjanna? Og við þurfum að taka mið af því. Þetta er eitt af lykilatriðunum í nýrri menntastefnu, þ.e. jafnrétti til náms til handa báðum kynjum.

Einnig vil ég svara því sem hv. þingmaður kom inn á varðandi tónlistarfræðslu og aðstoð við hana. Frístundakortin hafa auðvitað liðkað verulega til varðandi það og svo erum við líka að vinna að því, og það kom inn í einum af fyrstu aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar, að styðja sérstaklega við lágtekjufjölskyldur er varðar tómstundastarf. Ég tel gríðarlega mikilvægt að ekkert barn sé skilið eftir á tímum kórónuveirunnar þannig að aukalegir fjármunir koma inn í það.