151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu. Varðandi tollana sem eru hv. þingmanni mjög hugleiknir vil ég undirstrika það sem kom fram í máli þingmannsins að þeir heyra undir annað ráðuneyti. Umsýslan með þeim og ákvarðanir um tolla og vinna með þá er á sviði annars ráðuneytis. Af því að hér er spurt hvort það sé í áætluninni að efla tolleftirlit þá ætla ég ekki að svara fyrir um það með hvaða hætti fjármálaráðuneytið hyggst vinna með tollinn og eftirlit þar. Því verða einfaldlega aðrir að svara. Ég veit það eitt að þegar ég leitaði eftir því við fjármálaráðherra og ráðuneytið að bæta vinnuna við tollskrána og eftirlitið þá var því mjög vel tekið og ráðherrann setti þá vinnu í gang sem var löngu tímabær, þannig að ég vænti þess að það verði gert með bravör og hef enga ástæðu til að ætla annað.

Varðandi tollinn á matvæli sem hér hefur verið nefndur og að það sé einhver frjálshyggja fólgin í því þá ætla ég bara að minna hv. þingmann á að það voru ekki frjálshyggjumenn sem gengu frá síðasta samningi um tolla við Evrópusambandið og kynntu hann, það voru ekki frjálshyggjumenn. Ég er ekki frjálshyggjumaður svo að það sé upplýst hér. Ég er íhaldsmaður af gamla skólanum en ég get alveg fullyrt að það voru ekki frjálshyggjumenn sem stóðu í stafni þeirrar samningsgerðar.