151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins til að botna umræðuna um tollana, ég held að við þurfum að reyna að komast út úr því að tala um verslun og bændur sem andstæðinga vegna þess að þetta stendur hvað með öðru. Ég er þeirrar skoðunar að samband framleiðenda innlendrar matvöru þurfi að vera styrkara og betra við verslunina en verið hefur. Ég veit til þess að það er áhugi á því að búa svo um hnúta að það geti orðið. Ég held að það sé alveg grundvallaratriði.

Ég vil nefna sömuleiðis að það er á mínum vegum, í tengslum við aðgerðaáætlun, von á skýrslu um þróun tollverndar, sem ég vænti að verði hægt að kynna von bráðar. Varðandi fiskeldissjóðinn þurfum við náttúrlega fyrst að fá fjárheimildir áður en við getum ráðstafað fjármunum úr honum og þess sér stað í fjárlagafrumvarpinu að það er að koma og vinnan við að undirbúa það gengur bara eftir atvikum vel, eins og sagt er, þegar hlutirnir eru kannski komnir á ákveðinn stað. Það er verið að vinna í þessu og ég veit ekki annað en að við eigum að vera tilbúin, þegar fjárheimildirnar eru komnar, til að auglýsa eftir umsóknum.