151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða innlegg. Já, það hafa ekki náðst samningar við sjúkraliða en unnið er að því að semja við þá. Hér var líka komið inn á málefni SÁÁ en á árinu 2019 kom þar inn 150 millj. kr. viðbót sem er varanleg þannig að á árinu 2021 erum við með 1.150 millj. kr. í pottinum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Við þekkjum öll til þeirra biðlista sem þarna hafa verið en horft hefur til betri vegar. Biðtíminn er undir almennum viðmiðum Embættis landlæknis en setja ætti sérstök viðmið um bið eftir meðferð við áfengis- og fíknivanda. Það er mín skoðun og mikilvægt að vinna að því.

Varðandi sérgreinalækna er þjónustusamningur við þá í útboði hjá Ríkiskaupum og verið að styrkja, eins og ég kom inn á áðan, göngudeildarþjónustuna hjá SÁÁ verulega með þeirri innspýtingu sem varð varanleg frá og með árinu í fyrra, þessum 150 millj. kr.