151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Aðeins meira um geðheilbrigðismálefni barna. Við megum ekki gleyma því að efling þjónustunnar á heilsugæslunni er gríðarlega mikilvægt líka til að stytta biðtímann inn á göngudeild og inn á BUGL. Það er forgangsverkefni í ráðuneytinu að sinna geðheilbrigði barna. Það er algjört forgangsatriði. Það er m.a. gert, eins og ég segi, með því að efla þjónustuna í heilsugæslunni: Heilsugæslan sem fyrsti viðkomustaður, eins og ég hef tekið mjög oft fram í dag.

Varðandi Suðurnesin þá er verið að undirbúa byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ og ég kom aðeins inn á það áðan, ef ég man rétt. Mig langar líka að segja varðandi Suðurnesin að ef við skoðum fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja frá árinu 2014 þá hafa þær aukist um meira en milljarð, 1,3 milljarða eða svo. Raunhækkunin er 22% frá 2014–2020. Við erum meðvituð um það að hin gríðarlega fólksfjölgun á þessu svæði kallar á frekari þjónustu þar. Ég fullvissa hv. þingmann um að það er verið að vinna að þessum málum og það hefur líka verið gripið til aðgerða eins og að efla hjúkrunarmóttöku og fleiri atriði.