151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þessir skerðingarliðir skipta miklu máli. En ef við skoðum þróun þeirra — hvað eigum við að gefa okkur? 12 ár aftur í tímann? — hafa þeir skoppað út og suður, bæði skerðingarprósentan sjálf en líka viðmiðunarfjárhæðin. Þannig vorum við ekki að færa upp til verðlags þegar við hækkuðum upp í þessar rétt um 110.000 kr. síðast, heldur hækkuðum við viðmiðunarmörkin í því tilviki um marga tugi þúsunda.

Svo má alveg færa fyrir því rök að eftir að menn hafa fundið einhvern jafnvægispunkt eigi að láta svona viðmiðunarfjárhæðir fylgja verðlagi. Ég skil það í sjálfu sér ágætlega. En á endanum reiknast þetta sem framlög til kerfisins og þá þarf að taka alla undirliggjandi þætti með, þar með talið hækkun bótanna, sem eru upp á 3,6% á þessu ári, þ.e. í þessum fjárlögum. Þegar allir þessir liðir hafa verið teknir með geta menn spurt sig hvort reglurnar séu sanngjarnar eða ekki. Sú umræða verður seint tæmd.