151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

tekjutenging atvinnuleysisbóta.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er auðvitað ekki þannig að þessi hópur verði fyrir skattahækkunum, eins og hv. þingmaður orðaði það. Það er ekki rétt. Þvert á móti voru hér lögfestar skattkerfisbreytingar þar sem skattar á tekjulægstu hópana lækka. Hvað varðar skerðingar hlýt ég enn og aftur að svara því til að Alþingi samþykkti tillögu hæstv. félagsmálaráðherra að draga úr skerðingum, í frumvarpi sem samþykkt var sumarið 2019. Þar var varið 2,6 milljörðum kr. til að draga úr skerðingum í örorkulífeyriskerfinu og það þrátt fyrir að ekki hafi verið gerðar neinar kerfisbreytingar á því kerfi, sem ég hef nokkrum sinnum rætt við hv. þingmenn hversu bagalegt er að Alþingi taki ekki efnislega umræðu um. Þetta er ekki gott kerfi og þarna eru víxlverkanir á milli bótaflokka sem valda óþarfaskerðingum. Það ætti að vera kappsmál okkar allra að taka þær tillögur sem unnið var að í starfshópnum sem hv. þingmaður sat í, til efnislegrar umræðu á vettvangi Alþingis þannig að við getum varið þeim fjármunum sem eyrnamerktir eru í þetta mál með sem skynsamlegustum hætti.

Hv. þingmaður spyr um 3,6% hækkun. Hún byggist á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðnum í heild sinni á árinu 2021. Ég held að það sé ekki hægt að svara því öðruvísi þar sem það er skýring í fjárlagafrumvarpinu á þessum 3,6%, af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um það. Ég minni á að hækkunin til þessa málaflokks er u.þ.b. 18 milljarðar á þessu kjörtímabili, sem eru vegna hækkana, lýðfræðilegra breytinga og sérstaks framlags til að draga úr skerðingum á örorkulífeyri.