151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að vekja máls á þessu. Mismunun er nefnilega víða. Það sem hér var til umræðu áðan hvað varðar hina fjölþættu mismunun þá getur einmitt farið saman aldur og kyn, eða fötlun og kyn, eða aðrir þættir sem auka enn á misréttið. Og það leynist víða. Við getum rætt um mismunun sem felst í aðgengi, en hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni mismunun í almannatryggingakerfinu og þá sérstaklega hvað varðar eldri konur sem ekki eiga full réttindi í almannatryggingakerfinu. Það er nákvæmlega það sem við vorum að koma til móts með frumvarpinu sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram um félagslegan viðbótarstuðning til aldraðra. Þegar skoðað var og greint hverjir stæðu höllustum fæti í þeim hópi þá dróst upp sú mynd að það voru einstaklingar sem ekki áttu fullan rétt í almannatryggingakerfinu, ýmist af því að það voru einstaklingar af erlendum uppruna eða konur sem ekki höfðu verið á vinnumarkaði. Þessi aðgerð var beinlínis hugsuð til þess að mæta þeim hópi. En ég held hins vegar að þegar við skoðum t.d. þegar fólk eldist þá sjáum við að þeir sem haft hafa hærri laun og hafa þar af leiðandi lagt meira fyrir í lífeyriskerfið, standa betur að vígi þegar kemur fram á efri ár. Þá birtist launamisrétti kynjanna með hvað skýrustum hætti. Þannig að það er alveg á hreinu að á meðan við leiðréttum ekki þetta misrétti á vinnumarkaði mun það ganga áfram upp allan stigann þar til fólk er komið á efri ár og farið að njóta tekna úr lífeyrissjóði.