151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins aftur að fjölþættri mismunun sem hv. þingmenn nefna hér. Eins og ég nefndi áðan er það töluverð breyting að við tökum til fleiri þátta en kyns, þ.e. að við horfum líka til annarrar mismununar, beinna eða mögulegra áhrifaþátta á mismunun. Með því að breyta lögunum þannig að við séum komin með sérlög um stjórnsýsluna þar sem tekið verður tillit til ólíkra mismununarþátta erum við í raun og veru að lyfta þeim. Það er nokkuð sem skipt getur verulegu máli fyrir, segjum konur með fötlun eða konur af erlendum uppruna, og með þessu erum við búin að breyta stjórnsýslunni og gera það að verkum að vægi annarra þátta en kyns er þá sérstaklega tekið til skoðunar.

En aðeins um það sem hv. þingmaður kom að hið síðara sinni, sem varðar hinn kynskipta vinnumarkað. Nú stendur yfir vinna í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem byggir á yfirlýsingu sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga sem náðust við BSRB fyrr á þessu ári um að ráðist verði í sérstaka skoðun á ekki bara launamun kynjanna heldur líka hinum kynskipta vinnumarkaði. Hann er mjög kynskiptur á Íslandi. Við erum í raun og veru að horfa þar á viðfangsefni sem teygir sig alveg niður í skólakerfið, því að þetta tengist líka kynskiptu námsvali. Ég ætla ekki að lofa því að ég komi hér með lausn, en þessum hóp er ætlað að skila tillögum um breytingar þannig að við getum stigið stærri skref en hænuskref í því að jafna kjör kynjanna. Þá þurfum við annars vegar að horfa á launamuninn og hins vegar á þessa miklu kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Ég er mjög bjartsýn á að þær aðgerðir sem þarna munu birtast verði til framfara, og kannski hraðari framfara í þessum málum.