151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni, Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir síðara andsvar. Ég get svo sem litlu við þetta bætt frá fyrra svari nema ég er þess fullviss velferðarnefnd muni undir styrkri stjórn taka þetta mál föstum tökum. Ég leyfi mér að vísa til skýrslu Tryggingastofnunar, samantektar á þjónustu við þessa tvo hópa, sem oft eru nefndir í sömu andrá þó að um gerólíka, eðlisólíka hópa sé að ræða. Hagsmunir þeirra við lagasetningu eru t.d. mjög mismunandi. Í hvert einasta skipti sem við fjöllum um þessi málefni og nefnum aldraða og öryrkja í sömu andránni hugsa ég um að það sé ekki eðlilegt að vera endilega að ræða málefni þeirra saman. En allt eru þetta mætir borgarar og við þurfum að rétta hlut beggja hópa.