151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

græn utanríkisstefna.

33. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið. Það er alveg hárrétt, eins og hann segir, að þetta eru oft og tíðum flókin mál. En líkt og fram kom í máli hv. þm. Loga Einarssonar þá þarf að taka ákvörðun, eins og dönsk stjórnvöld gerðu skýrt og ákveðið. Þau ákváðu að utanríkisstefna þeirra yrði græn og byggð á loftslagsaðgerðum og markmiðum þar að lútandi.

En mér fannst punkturinn áhugaverður sem hv. þingmaður kom inn á varðandi eldri fríverslunarsamninga, til að mynda við Kína. Við vitum að um leið og Kína tekur sig til og ákveður til að mynda að vera hluti af Parísarsamkomulaginu þá þýðir það gríðarlega mikla og stóra hluti. En þó að hv. þingmaður segi að þetta sé skynsamleg og hógvær þingsályktunartillaga sem hér er — og kannski er það í takt við það sem við viljum sem erum opnari fyrir því að gera meira, hraðar og betur í loftslagsmálunum — þá er hún er þó róttæk gagnvart því, eins og fram kom í máli annars þingmanns, að taka ákvörðun um hver utanríkisstefnan er. Líkt og hv. þingmaður kom inn á höfum við sem höfum verið nefndarmenn í utanríkismálanefnd verið að kalla eftir því að mörkuð sé skýr lína. Alþjóðaviðskipti og fríverslunarsamningar eru einmitt einn hluti af yfirlýstri utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar, sem ætti kannski bara að vera partur af verkefnunum en ekki stefna. En ef það á að vera stefna ætti hún kannski að vera metnaðarfyllri og skýrari. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeirri skoðun með mér.