151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

breytingar á stjórnarskrá.

[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Nú hafa 41.610 manns skrifað undir ákall um að sett verði ný stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, samanber niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sama efnis 20. október 2012. Forsætisráðherra hefur staðið fyrir formannafundum en fyrirliggjandi afrakstur þeirra þykir nokkuð úr takti við slíkar væntingar, bæði að umfangi og efni. Hluti af þeirri málsmeðferð hefur þó verið að fá umsögn Feneyjanefndarinnar um þau frumvörp sem sagt hefur verið frá að forsætisráðherra hyggist leggja fram.

Í umsögn Feneyjanefndarinnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Nefndin álítur að íslenska þjóðin eigi að fá augljósar, skýrar og sannfærandi útskýringar á leið ríkisstjórnarinnar og enn fremur að ástæður þess að vikið sé í veigamiklum atriðum frá tillögu sem áður voru samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 ætti að útskýra fyrir almenningi.“

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvaða augljósu, skýru og sannfærandi skýringar hún vilji gefa almenningi fyrir því að vikið sé í veigamiklum atriðum frá tillögum sem áður voru samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.