151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðra.

[15:22]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi einstaka mál þá höfum við m.a. á þessu kjörtímabili sett upp sérstaka eftirlitsstofnun sem á að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin séu að sinna þeirri lögboðnu þjónustu sem bundin er í lög og varðar réttindi fatlaðs fólks og þjónustu við fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa. Hún tók til starfa fyrir tveimur og hálfu ári síðan.

Síðan er það líka þannig, og er rétt að halda því til haga, eins og ég gerði áðan, að við höfum verið að auka við málaflokkinn. Við höfum aukið við NPA-samninga á yfirstandandi ári. Það fjármagn sem rennur til NPA-samninga hefur aukist úr ríkissjóði. Bæði var það gert eftir sérstakri áætlun sem sett var í upphafi kjörtímabilsins og síðan bætti þingið líka inn í eftir beiðni frá félagsmálaráðuneytinu milli 1. og 2. umr. Við höfum líka verið að auka til sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóð og í samninga sem gerðir hafa verið við sveitarfélögin og kynntir voru ekki alls fyrir löngu vegna Covid, gert samkomulag þar. Þar var aukið fjármagn til Félagsþjónustu sveitarfélaga (Forseti hringir.) til að geta betur sinnt þeim verkefnum sem lúta að málefnum fatlaðs fólks.

En ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Betur má ef duga skal og það þurfum við alltaf að hafa hugfast. (Forseti hringir.) En það er beinlínis ósanngjarnt að segja að núverandi ríkisstjórn hafi ekki aukið fjármagn í málaflokkinn vegna þess að það hefur hún gert.