151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áskorunin er stór og núverandi staða er sú að mótaðar hafa verið aðgerðir sem munu aðeins ná helmingi af þeim árangri sem við ætlum að ná fyrir 2030. Hinn helmingur aðgerðanna er enn í vinnslu, það er aðgerðaáætlun stjórnvalda eins og hún er, það er fyrir árið 2030. Heilan helming á eftir að móta. Það er dálítið áhugavert.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram í þessari umræðu, sem er mjög jákvætt. Við þurfum jákvætt viðhorf gagnvart því vandamáli sem heimurinn stendur frammi fyrir því að staðreyndin er sú að við sjáum fram á breyttar aðstæður. Viðbrögðin við breyttum aðstæðum munu kosta alveg gríðarlega mikið, bæði samfélagslega og efnahagslega. Það væri auðvitað best að þurfa ekki að fara í mótvægisaðgerðir. Horfurnar eru hins vegar svo alvarlegar að annað væri óábyrgt. Gögnin liggja fyrir framan okkur. Sviðsmyndirnar eru að raungerast úti um allan heim. Það sem spáð hefur verið á undanförnum árum og áratugum er að raungerast. Það ætti að vera okkur víti til varnaðar.

Við þurfum tvímælalaust að taka reglulega umræðu um skuldbindingar okkar, hvort nóg sé að gert. En afleiðingar loftslagsbreytinga eru síðan vandamálið sem við þurfum alltaf að hafa í huga, að uppfylla skuldbindingar er lágmarkskrafa. Ef við náum þeim skuldbindingum horfum við samt fram á ákveðnar afleiðingar samkvæmt þeim líkönum sem við miðum við, þannig að við búumst við því að þrátt fyrir að við förum í mótvægisaðgerðir þurfum við að upplifa þær breyttu aðstæður sem þar koma í ljós. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir.