151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið spurninguna en við erum í fyrsta lagi með ákveðna lágmarksveltu sem skilyrði fyrir því að komast í úrræðið. Við erum að horfa til einstaklinga og minni rekstraraðila sem eru með allt að þrjá starfsmenn. Það er hópurinn sem við horfum til. Svo gerum við kröfu um að menn geti sýnt fram á einhvern rekstrarkostnað en ákveðið hámark er á því hversu mikill styrkur fylgir fyrir hvern starfsmann sem á í hlut. Ef rekstrarkostnaður vegna þeirra einstaklinga sem eiga í hlut hefur verið hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir teljast þeir engu að síður uppfylla skilyrði þess að fá styrk. Hann verður þó takmarkaður við hámarksfjárhæðina. Hins vegar held ég að það sé rétt hjá hv. þingmanni, ef ég hef skilið hann rétt, að við getum fengið gríðarlega mikil jaðaráhrif út af tekjufallsviðmiðinu. Hér miðum við við 50% og það má t.d. spyrja: Hvað með örlög þess sem hefur tapað 45% af tekjum sínum? Hann fær ekkert. Og það er rétt en þarna höfum við í raun og veru farið þá leiðina að hafa viðmiðið frekar lægra, þ.e. að 50% dugi. Í mörgum öðrum úrræðum sem við höfum verið að tefla fram höfum við farið fram á 75% tekjufall. Að því leytinu til er þetta því opnara úrræði en sum önnur. En jaðaráhrifin eru vissulega veruleg.