151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

barnalög.

204. mál
[16:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á barnalögum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á barnalögum sem snúa að því að í barnalög verði bætt nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á núgildandi ákvæðum barnalaga sem snúa að því að kona sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka verði talin móðir barns en ekki foreldri eins og núgildandi ákvæði laganna mælir fyrir um.

Frumvarpið gerir auk þess ráð fyrir breytingum á tilteknum ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um almannatryggingar og lögum um kynrænt sjálfræði. Frumvarpið sem hér er lagt fram var unnið í samstarfi við forsætisráðuneytið og starfshóp sem skipaður var samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Frumvarpið tengist þeim frumvörpum sem forsætisráðherra hefur þegar mælt fyrir um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði ásamt breytingum á ýmsum lögum vegna breytinga á lögum um kynrænt sjálfræði.

Aðdragandi frumvarpsins er sá að í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, skipaði forsætisráðherra starfshóp sem var m.a. falið að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, meðal annars barnalögum. Starfshópurinn skilaði drögum að frumvarpi til breytinga á barnalögum sem birt voru í samráðsgátt Stjórnarráðsins og byggir frumvarpið sem hér er lagt fram efnislega á tillögum starfshópsins.

Í frumvarpinu kemur fram að íslensk lög hafi ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu trans fólks að það gangist undir ófrjósemisaðgerð eins og gert hafi verið í ýmsum löndum til skamms tíma. Því sé vel hugsanlegt að trans karl gangi með og ali barn og að trans kona geti barn. Þessir möguleikar hafa reyndar verið fyrir hendi fyrir setningu laga um kynrænt sjálfræði en ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að samræma þau þessum veruleika. Lög um kynrænt sjálfræði heimila til að mynda einstaklingum að hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og þurfa foreldrareglur barnalaga jafnframt að taka mið af því.

Í núgildandi barnalögum er gengið út frá því að einungis kona geti alið barn og er hugtakið móðir notað um hana. Þá er gert ráð fyrir því í lögunum að hitt foreldri barns sé að jafnaði karl, þ.e. að segja faðir þess. Samkvæmt barnalögum er faðir oftast líffræðilegt foreldri barnsins, en þó ákvarðast foreldrastaða föður í sumum tilvikum af tengslum við móður án þess að hann hafi getið barnið með sæði sínu.

Barnalögin skilgreina einnig foreldrastöðu þegar kona í hjónabandi eða skráðri sambúð með annarri konu elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun og telst makinn þá foreldri barnsins. Núgildandi barnalög taka hins vegar hvorki til þeirra tilvika þegar manneskja sem ekki hefur kvenkyns kynskráningu elur barn né þegar einstaklingur sem ekki hefur karlkyns kynskráningu getur barn. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi rétti yrði trans maður sem elur barn talinn móðir þess og sama er að segja um einstakling með hlutlausa kynskráningu. Trans kona sem getur barn yrði þar af leiðandi talin faðir þess og það sama ætti við um einstakling með hlutlausa kynskráningu.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að grunnmerking orðsins faðir sé sú sama og í gildandi lögum, þ.e. að faðir sé karlkyns foreldri. Samkvæmt frumvarpinu myndi því karlmaður sem elur barn eftir breytingu á kynskráningu sinni teljast faðir þess. Þetta þýðir að sá möguleiki verður fyrir hendi að barn eigi tvo feður.

Til samræmis er lögð til breytt skilgreining hugtaksins móðir í barnalögum þannig að það eigi við um kvenkyns foreldri en ekki einungis um konu sem elur barn. Breytingin hefur í för með sér að barn geti átt tvær mæður, t.d. ef móðirin sem elur það er í hjúskap eða sambúð með trans konu. Vegna breyttrar merkingar hugtaksins er talið nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum barnalaga og annarra laga sem mæla fyrir um sérstök réttindi til handa móður vegna meðgöngu og barnsburðar. Þá er lagt til í frumvarpinu að hugtakið foreldri í þrengri merkingu verði notað um foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu enda sé orðið ekki kyngreinandi.

Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að foreldraregla, sem kalla mætti parens est-reglu, hliðstæð pater est-reglu 2. gr. barnalaga, gildi um ákvörðun foreldrastöðu foreldris með breytta kynskráningu sem er í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldrinu sem ól barnið. Með tilliti til þeirrar forsendu barnalaga að slíkar reglur grundvallist á yfirgnæfandi líkum á að makinn sé líffræðilegt foreldri er lagt til að parens est-regla eigi einungis við ef upphafleg kynskráning foreldra útilokar ekki líffræðileg tengsl makans við barnið. Reglan getur því ekki, frekar en pater est-regla gildandi laga, átt við í hjónaböndum eða sambúð einstaklinga sem höfðu upphaflega sömu kynskráningu.

Krafan um möguleika á líffræðilegum tengslum við þessar aðstæður er í beinu samhengi við rétt barns til að þekkja uppruna sinn. Ef kona á von á barni án tæknifrjóvgunar samkvæmt lögum og líffræðileg tengsl við maka eru útilokuð er alger óvissa til staðar um uppruna sæðisins og þar með líffræðilegan uppruna barnsins. Árétta ber að þegar um er að ræða tæknifrjóvgun er staðan á hinn bóginn allt önnur. Þá er um að ræða formlegt ferli, notast við gjafasæði og sæðisgjafi verður lögum samkvæmt ekki dæmdur faðir barns. Ef parens est-reglan eða sérstakar reglur um foreldastöðu eftir tæknifrjóvgun eiga ekki við verður foreldrastaða foreldris með breytta kynskráningu, þ.e. þess sem ekki ól barnið, ákvörðuð með foreldraviðurkenningu, sem er í öllum aðalatriðum sambærileg faðernisviðurkenningu, eða dómsmáli samkvæmt ákvæðum barnalaga. Það gildir þó einnig um regluna um foreldraviðurkenningu að hún getur einungis átt við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl foreldrisins við barnið.

Í frumvarpinu eru í þriðja lagi lagðar til sérstakar reglur um ákvörðun foreldrastöðu foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni þegar barn er getið við tæknifrjóvgun. Annars vegar er um að ræða reglur um foreldrastöðu þess foreldris sem elur barnið, þ.e. karlmaður sem elur barn telst faðir þess og einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns sem hann elur. Hins vegar eru reglur um foreldrastöðu hins foreldrisins og eru þær hliðstæðar reglum 6. gr. barnalaga.

Í frumvarpinu eru í fjórða lagi lagðar til breytingar á 2. mgr. 6. gr. núgildandi barnalaga sem snúa að því að kona sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka verði talin móðir barns samkvæmt barnalögum en ekki foreldri eins og núgildandi ákvæði mælir fyrir um.

Að lokum má nefna að í frumvarpinu er lagt til að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá, þar með talið um gögn til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun hér á landi og erlendis og um foreldri þess og upplýsingagjöf til barns.

Árétta ber að með frumvarpinu stendur ekki til að gera grundvallarbreytingar á þeim undirstöðusjónarmiðum um foreldrastöðu, þ.e. að sjálfkrafa skráning á faðerni geri ráð fyrir löglíkum á faðerni nema formleg tæknifrjóvgun hafi átt sér stað. Af þessu leiðir til að mynda að í tilviki tveggja kvenna sem eignast barn verður að sýna fram á að formleg tæknifrjóvgun hafi átt sér stað. Lagt er þó til að ráðherra setji reglugerð um skráningu barns í kjölfar tæknifrjóvgunar, en með þeim hætti er unnt að taka til skoðunar hvernig haga megi skráningu á sem aðgengilegastan hátt með hliðsjón af gildandi lögum.

Frú forseti. Með þessum breytingum erum við að tryggja að lagaumhverfið endurspegli betur raunveruleika okkar og þann fjölbreytileika sem við höfum í samfélaginu. Á sama tíma og við fögnum fjölbreytileikanum getum við ekki haft lög sem ekki viðurkenna foreldrastöðu trans fólks og mismuna samkynja hjónum eftir kyni. Einnig er mikilvægt að huga að rétti barns til að vita uppruna sinn og fá upplýsingar um foreldra sína. Verði frumvarpið að lögum viðurkennum við foreldrastöðu trans fólks, tryggjum réttari skilgreiningar móður fyrir samkynja pör en gerum ekki grundvallarbreytingar á undirstöðusjónarmiðum um foreldrastöðu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.