151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er þetta mál stærsta lýðræðismálið sem þetta þing glímir við, stærsta réttindamálið, stærsta umhverfismálið, stærsta málið, punktur. Hér hefur verið kallað eftir efnislegri umræðu um frumvarp um breytingar á stjórnarskrá. Það gerði hæstv. forsætisráðherra í andsvörum við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson hér fyrr í vikunni. Ég kallaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur þessa umræðu til þess að geta átt í efnislegri í umræðu um málið, en hér er enginn forsætisráðherra, merkilegt nokk. Hér hefur líka oft verið nefnt að það þurfi að vera sátt, víðtæk sátt, um breytingarnar. Það virðist hljóma fyrir öllum öðrum en kannski þeim sem segja það, að Sjálfstæðisflokkurinn sé sáttur við breytingarnar.

Ég vil hins vegar snúa þessu við. Það er komin niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem aukinn meiri hluti samþykkti að leggja drög stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Aukinn meiri hluti þýðir í öllum lýðræðislegum skilningi sátt. Það þýðir óhjákvæmilega að mínu mati að það þurfi að vera sátt um það ef breyta á frá þeim tillögum, þ.e. þegar við leggjum til breytingar á því efnisinntaki sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs þá þurfum við öll að vera sátt, mjög mikilvægur munur á því hvar sáttin þarf að liggja.

Ástæðan fyrir því er að þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún er æðri því umboði sem ég hef sem kjörinn fulltrúi í almennri kosningu. Þetta er atkvæðagreiðsla um sértækt mál. Lögfræðingarnir hérna ættu að þekkja umræðuna um sérlög og almenn lög, og geta sett ákveðið samasemmerki þar á milli. Þarna er umboð kjósenda, allra kjósenda sem vildu taka þátt, þátttökuprósentan skiptir ekki máli. Það gátu allir tekið þátt. Það eina sem skiptir máli þarna er niðurstaðan. Ef við förum í þá umræðu að fjöldinn skipti máli þurfum við að bera þetta saman við fyrri þjóðaratkvæðagreiðslur sem var farið eftir, eins og t.d. þegar Ísland varð fullveldi. Þá var minna hlutfall kjósenda sem sagði já við þeirri spurningu þó að hlutfallið af þeim sem kusu hafi verið hærra. Það voru samt færri sem tóku þátt. Með þeim rökum hefðum við ekki orðið fullveldi 1918. Ástæðan fyrir lítilli kjörsókn var svipuð og í dag, þá var faraldur í gangi. (BÁ: Ekki 2012.) Ekki 2012. (BÁ: Þá var enginn faraldur.) Nei, þá var enginn faraldur. Það var ýmislegt annað í gangi.(Gripið fram í.)

Óháð því: Þegar það er þjóðaratkvæðagreiðsla sem allir hafa aðgang að, allir hafa möguleika á að taka þátt í, gildir sú niðurstaða. Ef við ætlum að fara í einhverja útúrsnúninga erum við komin út á ansi hálan ís hvað lýðræðisleg rök varðar.

Nú hafa verið nokkrar kosningar síðan þá og önnur rök hafa verið notuð. Það hafi verið kosningar og niðurstaðan í þeim hafi búið til ríkisstjórnir sem hafi bara einfaldlega ekki séð fram á að hafa meiri hluta fyrir málinu á þingi. Það eru mjög áhugaverð rök, sérstaklega þegar við skoðum kjörtímabilið strax eftir 2009–2013, þ.e. 2013–2016. Þá var það stefna eins af ríkisstjórnarflokkunum á því kjörtímabili að klára ferlið. Það var Framsóknarflokkurinn. Það var í ályktun þeirra frá því í febrúar á því ári að klára stjórnarskrármálið með drögum stjórnlagaráðs sem lágu fyrir. Einnig núna fyrir þetta kjörtímabil var það stefna Vinstri grænna að klára málið samkvæmt þeim forsendum sem lágu fyrir eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. En einhvern veginn gerðist þetta ekki. Þannig að sú rök að hér hafi verið kosningar, almennar kosningar, sem einhvern veginn eiga að yfirskrifa sértækar kosningar, sem hafi leitt til þess að það sé ekki meiri hluti fyrir málinu á þingi, standast ekki miðað við þau kosningaloforð sem voru gefin fyrir kosningar. Það gerir það ekki. Þó að raunin geti vissulega verið önnur þá voru væntingar ekki gefnar til þess fyrir kosningar, þ.e. þeir flokkar sviku einfaldlega kosningaloforð. Sú er raunin.

Árið 2016 fór ég aðeins yfir þetta mál og gerði greiningu á því hver væri munurinn á innihaldi núverandi stjórnarskrár og þess frumvarps sem þá lá fyrir. Sú greining sem ég gerði þá, ég ætti kannski að uppfæra hana núna og verður kannski ágætisverkefni á næstu vikum, leiddi í ljós að miðað við núverandi stjórnarskrá og frumvarp stjórnlagaráðs, ekki frumvarpið sem var lagt fram hér, ég myndi uppfæra það með tilliti til þess, eru í texta stjórnarskrár Íslands 203 setningar, frá punkti til punkts. Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru 378 setningar. Nýja stjórnarskráin er mun lengri en núgildandi stjórnarskrá. Spurningin sem ég vildi svara með því að bera saman allar setningar í núgildandi stjórnarskrá og allar setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs var að sjá hversu mikið af stjórnarskránni er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs af því að það var talað um kúvendingu, algjöra lagaóvissu, öllu væri hent til hliðar o.s.frv. Niðurstaðan var: Nei. Það eru a.m.k. 160 setningar úr stjórnarskránni sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs svo til frá orði til orðs. En það eru 43 setningar sem hverfa, setningar sem er ekki að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs eða þeim er breytt með einhverju móti þannig að það er annað fyrirkomulag, t.d. ekki landsdómur, það er bara Hæstiréttur sem sér um svoleiðis o.s.frv. Það eru 43 setningar sem annaðhvort hverfa eða þeim er umbylt svo mikið að það er í raun hægt að segja sem svo að þær séu ekki í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það væri gaman að lesa þær allar upp en það tekur tíma með 43 setningar. Ein af þeim er einmitt grein um að forsetinn veiti annaðhvort sjálfur eða með því að fela öðrum stjórnvöldum undanþágur frá lögum samkvæmt reglum sem farið hefur verið eftir hingað til. Þetta hverfur t.d., Alþingi starfar í einni málstofu, það hverfur, það er búið að breyta því og er öðruvísi. Það eru ýmis önnur dæmi. Menn eiga rétt á að safnast saman vopnlausir. Það er fjarlægt og haft öðruvísi. Í staðinn koma 228 nýjar setningar. Ef við tökum núgildandi stjórnarskrá, fjarlægjum 43 setningar og bætum við 228 í viðbót, þá fáum við frumvarp stjórnlagaráðs. Þar eru ýmsar mjög mikilvægar viðbætur en ekki viðbætur sem ættu að koma neinum á óvart. Þetta þýðir að frumvarp stjórnlagaráðs, og í raun það frumvarp sem er um að ræða hérna, er í fyrsta lagi uppfærsla á núgildandi stjórnarskrá, 80% af henni er að finna nánast orðrétt í frumvarpi stjórnlagaráðs og í því frumvarpi sem við ræðum hér. 80%. Síðan eru viðbætur. Þetta, þessi atriði, þessar 43 setningar sem eru að hverfa, er efnislega umræðan sem við ættum að taka. Eru þetta setningar sem ættu að hverfa eða ekki? Ef við förum yfir listann sé ég enga sérstaka ástæðu fyrir því að halda neinum þeirra, sérstaklega ekki miðað við það sem kemur í staðinn.

Hinn hluti efnislegu umræðunnar eru þessar 228 nýju setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs. Ég þyrfti að gera þessa greiningu aftur miðað við nýja frumvarpið, það gæti orðið ansi áhugavert líka, það er ekki það mikið breytt. Það eru þó nokkrar breytingar en þær ættu ekki að breyta þessum fjölda mjög mikið. Hingað til hefur ekki verið mikil efnisleg umræða um einstakar greinar frumvarpsins nema í þessari formannanefnd, sem er að öðru leyti mjög áhugavert af því að hæstv. forsætisráðherra kallaði eftir efnislegri umræðu. Á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra kallar eftir efnislegri umræðu í þingsal er hún búin að læsa þetta ferli inni í einhverjum formannahópi allt kjörtímabilið og mætir síðan ekki einu sinni til að eiga efnislegu umræðuna sem hún kallaði eftir. Mjög áhugavert, finnst mér alla vega.

Á netinu er að finna áhugaverða vefsíðu sem heitir stjornarskra.com og þar á að vera umræða um staðreyndir. Ef ég ber mína greiningu á muninum á stjórnarskrá og frumvarpi stjórnlagaráðs saman við þann vef kemst ég að þeirri niðurstöðu að við erum ekki alveg sammála um það hvað eru staðreyndir og hvað ekki. Eitt sem er t.d. sagt vera staðreynd er þegar verið að svara spurningunni: Kaus þjóðin nýja stjórnarskrá? Það er enginn að halda því fram að það hafi verið kosin ný stjórnarskrá. Það vita það allir að það var kosið um það hvort gera ætti frumvarp stjórnlagaráðs að grundvelli fyrir nýja stjórnarskrá. (BÁ: Sem frumvarp.) Sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Það var ekki kosið um að það væri komin stjórnarskrá og væri komin í gildi ný stjórnarskrá. Það var ekki kosið um það, það vita allir. En það er alltaf verið að setja fram og snúa út úr umræðunni á þann hátt eins og einhver sé að segja það. Það kallast strámaður. Það er sagt að 64% hafi samþykkt að leggja þetta til grundvallar, eins og það er sett fram þar, þegar hið rétta er að það voru 66,9%. Ég veit ekki af hverju það þurfti endilega að breyta prósentutölunni.

Stendur til að breyta stjórnarskránni? Það er líka spurt að því á síðunni og farið yfir verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarsáttmálann og ferlið hjá formönnum flokkanna. Vandamálið við þá spurningu er að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar segir okkur að leggja eigi fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, byggt á drögum stjórnlagaráðs. Það er verkefni okkar samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má alveg líka koma með tillögur að breytingum á einstökum greinum en það uppfyllir ekki niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Samdi þjóðin nýja stjórnarskrá? er líka ein spurning. Því er svarað með því að þjóðin geti ekki samið texta. Já, tæknilega séð, þá er það ekki satt en eins nálægt og hægt er að komast að því. Þjóðin velur sér fulltrúa til að setja saman drög að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá þar sem víðtækt samráð er haft um hverja eina einustu grein og beðið um tillögur að breytingum eða hvað sé hægt að hafa til viðbótar. Það er ekki hægt að komast nær því að segja að vissulega hafi þjóðin samið sér nýja stjórnarskrá, sérstaklega þegar við endum síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu um nákvæmlega það plagg. Niðurstaðan er að aukinn meiri hluti vill að það sé notað sem drög að nýrri stjórnarskrá. Það er verkefni okkar að skila því. Alþingi hefur ekki getað gert það á átta árum. Mér finnst það vera merki um ákveðið dugleysi Alþingis, skort á getu til að framfylgja lýðræðislegu hlutverki. Hversu ósammála sem einstakir þingmenn eru frumvarpinu eða einstökum greinum eða hvað svo sem það er, ættum við alltaf að geta treyst kjósendum til að taka við frumvarpinu og segja já eða nei. Og það er algerlega nauðsynlegt að það sé gert. Ef við bregðum frá frumvarpi stjórnlagaráðs á einhvern hátt þá eigum við líka að bjóða fólki upp á að velja útgáfu Alþingis eða útgáfu af frumvarpi stjórnlagaráðs. Við eigum að geta treyst lýðræðinu, geta sett þetta mál í hendur á stjórnarskrárgjafanum, þjóðinni. Í staðinn fyrir að segja bara: Mér finnst þetta ómögulegt, ég ætla bara að segja nei, þá er möguleikinn þessi: Uppfyllum niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Látum þjóðina fá þetta aftur til að segja af eða á.