151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

geðheilbrigðismál.

[10:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er sannarlega rétt að það er mikilvægt að leggja áherslu á geðheilbrigðismál á öllum tímum en ekki síst einmitt núna, þegar við erum að glíma við áhrif Covid-19 og þeirra aðgerða sem við höfum þurft að grípa til í sóttvarnaskyni.

Við höfum á þessu kjörtímabili lagt umtalsverða áherslu á þennan málaflokk og einmitt til að tryggja heildstæðari þjónustu á geðheilbrigðissviði. Við höfum ráðið sálfræðinga í heilsugæsluna um allt land til að tryggja sálfræðiþjónustu á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum fullmannað geðheilsuteymi um allt land og stofnað sérstakt geðheilsuteymi fyrir fanga. Við höfum unnið í að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Við höfum ráðstafað sérstöku fjármagni í eflingu geðheilbrigðisþjónustu vegna Covid-19, 540 milljónir á þessu ári og áfram á næsta ári. Það fjármagn hefur t.d. verið notað til að bæta við tíu stöðugildum sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á síðustu mánuðum og fleiri sálfræðinga um allt land. Geðráð var sett á fót tímabundið í apríl síðastliðinn sem hefur það hlutverk að hnýta markvisst saman aðgerðir með notendum heilbrigðisþjónustunnar sem skiptir máli að komi að þróun og uppbyggingu þjónustunnar. Við höfum lagt áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Við höfum aukið fjármagn til sjálfsvígsforvarna. Við höfum unnið að því að draga úr biðlistum fyrir ADHD-greiningar, bæði hjá börnum og fullorðnum, í samvinnu heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala, ADHD-samtakanna og heilsugæslunnar. Við höfum unnið að gerð geðheilbrigðisstefnu til ársins 2030 í ráðuneytinu sem verður byggð á heilbrigðisstefnu.

Þessi málaflokkur, geðheilbrigðismálin, eru í forgangi hjá mér og hafa verið allan minn embættistíma.