151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum í raun stórfurðulegt mál. Hingað til lands eru fluttar landbúnaðarafurðir, að því er virðist fram hjá réttu reglum, réttum lögum eða samningum með aðferðum sem virðist löngu upplýst um. Yfirvöld hafa vitað af þessu í þó nokkurn tíma en ekkert gerist. Hvað er málið? Við værum ekki að ræða þetta hér ef einhver stjórn væri á málaflokknum. Yfirvöld hafa vitað af þessu mánuðum og jafnvel misserum saman, sem er í raun það alvarlegasta í málinu. Menn komast upp með að segja bara: Tölvan segir nei. Að lítið sé hægt að gera og rangindin halda áfram. Málið er vont fyrir ríkissjóð sem tapar verulegum tekjum. Málið er vont fyrir bændur sem framleiða hollar landbúnaðarvörur. Innflutningurinn er vondur fyrir samkeppnisaðila sem ekki standa jafnfætis. Málið er sérlega vont fyrir þá sem vinna að smitsjúkdómavörnum sem ekki hafa fulla yfirsýn yfir innflutning landbúnaðarafurða. Málið er þó sérstaklega vont fyrir innlenda framleiðslu sem sætir ósanngirni. Þá er það vont fyrir heiðarlega innflytjendur líka.

Herra forseti. Það verður að játast að það hefur verið hálfspaugilegt að fylgjast með stjórnarþingmönnum sem skrifa móðgaðir greinar og færslur um málið. Því að hverjir eru við stjórnvölinn? Eru það ekki einmitt þeir sjálfir? Og meira að segja ráðherrar skrifa um hvað sé til ráða.

Herra forseti. Hverjir ráða? Eru það ekki einmitt ráðherrarnir sem eiga að ráða og stjórna? Í sannleika sagt væri þetta mál allt hið hlægilegasta ef ekki væri fyrir hversu alvarlegt það er. Fyrir ári síðan tölum við í þinginu mikið og lengi um hertar mótvægisaðgerðir vegna innflutnings á ófrosnu kjöti með það að markmiði að treysta allt eftirlit innan lands og skipuleggja aðgerðir til að koma í veg fyrir að hingað bærust smitsjúkdómar með þessum innflutningi. Þetta mál sannar svo ekki verður um villst að það er brýn þörf á að treysta landamærin hvað þennan innflutning varðar. Þau eru greinilega galopin og eftirlit í molum. Og því miður endurspeglar málið stöðu landbúnaðarins í Stjórnarráðinu. Við krefjumst skýrra svara og tafarlausra aðgerða.