151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð og góð að mörgu leyti og margt hefur komið fram sem á kannski ekki heima í þessari umræðu vegna þess að hún snýst eingöngu um eftirlit með tollum. Við getum verið sammála eða ósammála um pólitíkina í kringum landbúnaðinn, en það er bara önnur umræða. Þessi umræða snýst um tolleftirlit.

Tolleftirliti er mjög ábótavant og kom það mjög vel fram í ræðum margra, þar með talið hæstv. ráðherra. Samfélagið í heild tapar á stjórnarháttum sem þessum. Traust á stjórnsýslunni er brostið sem og traust á stjórnvöldum við að innleiða og standa við alþjóðlega samninga, í þessu tilfelli varðandi samræmdu tollskrána, samkvæmt aðild okkar að Alþjóðatollastofnuninni. Af framansögðu leiðir að breyta verður tollframkvæmd, tollskránni sjálfri og auka verður tolleftirlit. Það er alveg skýrt vegna þess að tjónið er það mikið. Við þurfum ekki á því að halda í dag að tapa peningum. Við þurfum að gera allt til að halda sjó í því árferði sem er í dag og bændur hafa borið skarðan hlut frá borði. Þjóðfélagið allt tapar á þessu og það er bara óásættanlegt.

Ég þakka fyrir umræðuna. Hún kemur málinu vonandi á hreyfingu. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnina til að taka á þessu máli. Vísir aðilar hafa sagt mér að starfsfólki við tolleftirlit hafi fækkað á síðustu misserum. Það segir kannski svolítið um það hvers vegna staðan er þessi í dag.