151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

94. mál
[16:54]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að gera grein fyrir þessu frumvarpi, færa okkur það hér til umfjöllunar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta frumvarp er flutt, þetta er í annað sinn. Og mér segir svo hugur að ef það fær ekki framgang í þetta sinn, sem við vonum auðvitað að gerist, verði ekki látið þar við sitja.

Frumvarpið er áhugavert, það er mikilvægt og það er tímabært. Þetta er enn ein tilraunin eða viðleitnin til að losa um þá fjötra sem öryrkjar eru settir í með öllu móti. Það er verið að reyna að brjóta þá múra sem myndaðir hafa verið í kringum öryrkja sem hindra þá í því að neyta möguleikanna á að komast út á vinnumarkaðinn, gera sig gildandi í samfélaginu eins og þeir mjög margir hafa efni til.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að velta upp hér. Það er t.d. ekki alveg óþekkt að öryrkjar hafi átt kost á því að gera samninga við vinnustaði í gegnum Vinnumálastofnun. Munurinn er sá að núna gera einstaklingarnir það á eigin forsendum. Telur hv. flutningsmaður að það sé mjög mikilvægt? Og hvað telur hv. flutningsmaður að þetta geti snert marga öryrkja á Íslandi? Hefur verið gerð einhver skoðun eða úttekt á því?