151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

94. mál
[16:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Þakka þér fyrir hæstv. forseti. Hv. flutningsmanni, Guðmundi Inga Kristinssyni, þakka ég sömuleiðis andsvarið. Við deilum skoðunum að öllu leyti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og flutningi sínum á frumvarpinu að horft hefði verið til reynslu Svía í þessu efni. Þar hefði þetta reynst vera þannig að 30% af öryrkjum sem reyndu úrræðið hefðu horfið á braut í atvinnulífinu. Það er vel. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort horft hafi verið til fleiri dæma, fleiri landa, í þessu efni. Við þekkjum það því miður af reynslunni að þeir sem falla fyrst út af vinnumarkaði þegar harðnar á dalnum, eins og um þessar mundir, eru þeir sem eru með skerta starfsorku. Við vonum auðvitað að tímabilið sem við erum í þrengingum verði stutt en við vitum að þeir sem verða fyrst fyrir barðinu á atvinnuleysi eru því miður öryrkjar eða þeir sem eru með skerta starfsorku, veikir fyrir, hvort sem er af líkamlegum ástæðum eða andlegum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi líka verið fjallað um umfang kostnaðarins í sambandi við þetta, áhrif á ríkissjóð. Ég vil undirstrika að ég tel að við höfum algerlega ráð á þessu. Þetta er bara spurning um forgangsverkefni og hversu mikið menningarsamfélag við ætlum að vera og hvernig við ætlum að koma fram við þegna okkar. Hefur það verið skoðað að einhverju leyti? (Forseti hringir.) Það er ekki auðvelt því að þetta hefur svo smitandi áhrif að öllu leyti.