151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[12:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu um biðlista eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvanda. Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji eðlilegt að yfir 500 börn bíði eftir sérhæfðri, þverfaglegri greiningu á Þroska- og hegðunarstöð. Þá er því til að svara að geðheilsuvandi barna er mjög mismunandi og mismunandi heilbrigðisstéttir sem veita börnum meðferð við þeim vanda sem við er að glíma. Heilsugæslan tekur á móti börnum með tilfinninga-, þroska- og hegðunarvanda og Þroska- og hegðunarstöð er starfrækt innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar bíða börn eftir sérhæfðri, þverfaglegri greiningu í kjölfar þess að frumgreining eða skimun hefur sýnt sterkar vísbendingar um geðheilbrigðisvanda, svo sem ADHD, kvíða og annan tilfinningavanda, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda auk námserfiðleika. Meiri hluti þessara barna glímir við vanda á fleiri en einu sviði og það er miður að mörg börn bíði eftir sérhæfðri, þverfaglegri greiningu á Þroska- og hegðunarstöð. Það skal hins vegar tekið fram að biðtímatölur einar og sér gefa ekki heildarmynd af biðtíma einstakra barna þar sem mál raðast á milli mismunandi biðlista, t.d. eftir eðli og þyngd mála og aldri barna. Þannig fara sum mál strax í forgang og bíða skemur, en önnur bíða lengur.

Hvað varðar meðferð er mikilvægt að halda því til haga að flest barnanna sem eru á biðlista eftir sérhæfðri greiningu eru þegar komin í einhver þjónustuúrræði, t.d. á vegum skóla, heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi fagaðila, og fá þannig aðstoð vegna síns vanda á meðan þau eru á biðlista. En vissulega væri mjög æskilegt að bið eftir greiningu yrði stytt og ráðuneytið er að fara yfir leiðir til þess og þá sérstaklega hvernig megi stytta bið eftir ADHD-greiningu og meðferð.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji það ásættanlegt að yfir 100 börn bíði eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingageðdeild BUGL. Stærsti hluti innlagna á legudeild BUGL eru bráðainnlagnir. Slíkar innlagnir gerast samdægurs og teljast 80–90% allra innlagna á BUGL til slíkra innlagna. Þegar mikið álag er á bráðaþjónustu lengist biðtími þeirra sem eru á almennum biðlista. Biðtími eftir slíkri innlögn getur verið allt frá viku til nokkurra mánaða og í því sambandi ber að geta þess að öll börn sem eru á biðlista eftir innlögn eru í virkri þjónustu göngudeildar BUGL. Þess ber einnig að geta að BUGL hefur í 12 ár verið þátttakandi í samráðsteymum heilsugæslunnar þar sem saman koma einnig fulltrúar félagsþjónustu, barnaverndar og skólaþjónustu til að tryggja heildstæða nálgun. Samráðsteymin tengja saman þjónustu í nærumhverfi barna á heildrænan hátt til að veita börnum stuðning, úrræði og meðferð sem þau þurfa til að dafna og njóta farsældar. Í dag eru 19 virk samráðsteymi af þessu tagi, flest á höfuðborgarsvæðinu en einnig nokkur á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hyggist grípa til aðgerða til að stemma stigu við þessum biðlistum. Já, heilbrigðisráðuneytið hefur í samvinnu við ADHD-samtökin, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið að skoða nýtt og skilvirkara fyrirkomulag, sérstaklega á greiningum og meðferð við ADHD. Ef það fyrirkomulag skilar tilætluðum árangri er ekkert því til fyrirstöðu að athuga hvort hægt sé að nota það fyrirkomulag við tilvísanir í aðrar greiningar og meðferð við öðrum geðröskunum barna.

Hv. þingmaður spyr að lokum hvort ráðherra telji það eðlilegt ástand að erfitt sé að manna BUGL vegna þess hve lág laun eru í boði, eins og hv. þingmaður orðar það. Þá ber að árétta að launamál Landspítala eru ekki á mínu borði. En þetta er hins vegar mikið áhyggjuefni ef rétt er.

Ég vil loks hér í mínu fyrra innleggi í þessari umræðu árétta það að ég sem heilbrigðisráðherra hef lagt mjög mikla áherslu á geðheilbrigðismál og ekki síst geðheilbrigðismál barna og ungmenna. Ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel þær áherslur í mínu starfi, þar sem ég hef lagt áherslu á að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og ekki síst til að þjónusta börn, og þar erum við auðvitað að tala um þessa svokölluðu fyrsta stigs þjónustu. Við höfum líka verið að auka stuðning og uppbyggingu geðheilsuteyma um allt land og við höfum lagt áherslu á það að geðheilbrigðismál séu í forgrunni og þau séu ekki afgangsstærð þegar líkamleg heilsa hefur verið í brennidepli. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að ég er algerlega sammála hans áherslum í þeim efnum að það beri að forgangsraða í þágu geðheilsu og að það beri að forgangsraða í þágu barna. Það hefur þessi ríkisstjórn viljað gera og ég vil þakka fyrir það aðhald sem hv. þingmaður veitir hér ítrekað í þeim efnum.