151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[12:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna sem er gríðarlega mikilvæg. Ég vil vitna í grein í nýju blaði Geðhjálpar. Þar segir að um langt árabil hafi nálgun okkar sem samfélags, þegar kemur að geðheilbrigði, verið að nær öllu leyti einkennamiðuð og að þegar geðheilsu okkar hrakar sé unnið með einkenni rétt eins og um kvef væri að ræða. Segir í þessari grein að rétt eins og í tilfelli þess sem er með kvef séu allar líkur á að sá sem glímir við geðrænar áskoranir fái einkennamiðaða meðferð, lyf og afar takmarkaða samtalsmeðferð sem í flestum tilfellum snýst um að breyta hegðun og hugsun, því mun flóknara sé að vinna með orsakir og byggja meðferðina á þeim.

Herra forseti. Mesta aukning í fjölda notenda þunglyndis- og kvíðalyfja er hjá stúlkum á grunnskólaaldri. Aukningin er meira en 90% á síðustu tíu árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Ólafs B. Einarssonar, verkefnisstjóra hjá Embætti landlæknis, í nýju Læknablaði. Meðal OECD-þjóða hefur notkun þunglyndislyfja verið langsamlega mest á Íslandi um nokkurra ára skeið. Þá var útskrift ADHD-lyfja til skólabarna umtalsvert meiri hér á landi en í samanburðarríkjum.

Nú skal það tekið skýrt fram héðan úr ræðustól Alþingis að lyf eru nauðsynleg en ofútskrift getur verið skaðleg og komið í veg fyrir annars konar aðstoð. Ofútskrift geðlyfja, rétt eins og annarra lyfja, hvort sem um er að ræða kvíða- og þunglyndislyfja eða örvandi lyfja, getur komið í veg fyrir að við sem samfélag, stjórnvöld, tökum á rót vandans sem hlýtur að lúta að einhverju í samfélagsgerðinni. Ég tel okkur þurfa að fara í ítarlega skoðun á því hvað veldur þessu og ég vil kalla eftir samfélagslegri ábyrgð, að við stöndum saman í að skoða rót vandans og koma í veg fyrir þetta ástand.