151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[13:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Hr. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að hefja alvöruumræðu um þessi málefni. Úrræði fyrir börn með geðheilbrigðisvanda á landsbyggðinni eru enn lakari en á höfuðborgarsvæðinu. Það er upplifun foreldra að þeir standi mjög einir í að halda utan um vanda barna sinna. Miðlægt meðferðarform á nú mjög upp á pallborðið hjá barnaverndaryfirvöldum, svokölluð fjölkerfameðferð. Á landsbyggðinni hefur aðgangur að þessari meðferð verið algjörlega ófullnægjandi. Það er vitaskuld erfitt fyrir foreldra af landsbyggðinni að fylgja börnum sínum þegar þau þurfa að nýta þessi miðlægu, sérhæfðu úrræði á höfuðborgarsvæðinu. Ýmsar rannsóknir benda raunar til þess að þetta meðferðarform henti heldur ekki vel fyrir fjölskyldur sem eru í mestum vanda og eru oft veikar fyrir, þurfa mikla aðstoð og afgerandi úrlausn.

Á sama tíma og biðlistar eru eins og lýst hefur verið fá meðferðarheimili úti á landi ekki tilvísanir til meðferðar á unglingum frá barnaverndaryfirvöldum þrátt fyrir að úrræði fyrir erfiðustu málin, sjálfsmeiðingar, alvarlegar átraskanir og vímuefnanotkun og vímuefnafíkn skorti tilfinnanlega. Og skýringarnar halda ekki vatni. Þetta er ekki boðlegt, hr. forseti. Það hefur misserum saman verið áformað að koma á laggirnar einu öflugu og vel mönnuðu meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Og ég spyr: Hvað líður þeim plönum?

Árið 2004 var unnin skýrsla af faglegum sérfræðingi heilbrigðisráðuneytisins, Samhæfing í málefnum barna og unglinga með hegðunarvanda og geðraskanir. Þar segir m.a.:

„Huga þarf sérstaklega að verndun barna foreldra sem eru í vímuefnaneyslu, með ýmsar fatlanir eða alvarlegar geðraskanir. Rannsóknir hafa sýnt að þessi börn munu fremur en önnur börn þróa með sér geðraskanir og forvarnir á þessu sviði eru því mikilvægar.“

Þetta var árið 2004. Og hvar stöndum við nú? Við þurfum ekki vitnanna við, gríðarlegir biðlistar og áköll víða að staðfesta að kerfið stendur sig ekki. Þetta er ekki traust birtingarmynd.