151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[14:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Það er gott að sjá einnig hæstv. ráðherra hér því að við erum að ræða mikilvægt mál og ég vil taka undir mjög margt sem kom fram í máli framsögumanns. Eðli málsins samkvæmt, og það vita þeir sem þekkja stefnu þessara ólíku flokka, geta leiðirnar að markmiðinu, sem ég tel að sé okkur sameiginlegt, þ.e. að styrkja íslenskan landbúnað, efla íslenskan landbúnað, auðvitað verið misjafnar. En ég er sammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, 1. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, sem eru allrar athygli verðar og þar gegnir landbúnaður gríðarlega mikilvægu hlutverki, að sóknarfærin eru mörg. Ég hef margoft sagt það í þessum þingsal að það felast gríðarleg tækifæri í landbúnaði á þessum tímum, hvort sem við erum á Covid-tímum eða öðrum tímum. En þá verðum við líka að fara í ákveðnar aðgerðir, sóknaraðgerðir. Ég sé metnað í ákveðnum tillögum hérna. Mér finnst líka, með fullri virðingu og ég vona að hv. þingmaður reiðist mér ekki þegar ég segi það, vera pínulítið gamaldags nálgun varðandi landbúnað og hvernig hægt sé að sækja fram. En á móti kemur að maður skynjar metnaðinn í þessari þingsályktunartillögu og mér finnst það fagnaðarefni.

Viðreisn og við sem höfum rætt þessi mál höfum margítrekað að það eru almennar leikreglur sem við viljum sjá gilda um allar atvinnugreinar. Auðvitað vitum við það, og við sjáum það m.a. hjá Evrópusambandinu, sem er réttilega að taka utan um ýmsar atvinnugreinar, ferðaþjónustu, með sama hætti og við gerum, landbúnað, af því að það þarf að bregðast þannig við á svona tímum og þá bara förum við í það með það að markmiði að þegar við komum inn í eðlilegra tímabil þá getum við verið með atvinnugreinar, eins og landbúnað, sem ná að blómstra, dafna og vaxa. Þá þarf að fara í ákveðnar aðgerðir. En leiðarljósin eiga engu að síður að mínu mati að vera þau að það á að vera samkeppni, það á að vera sjálfbærni, það á að vera nýsköpun. Þetta eru leiðarstefin sem ég tel mikilvægt að ríki í atvinnurekstri, landbúnaði sem öllum öðrum. Því til viðbótar þurfa stjórnvöld að vera með mjög markvissar aðrar aðgerðir. Það þarf að rækta innviðina og það er með öllu ófært að víða um land hafi bændur ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni. Það skaðar þá m.a. í því að reyna að byggja upp aðrar atvinnugreinar samhliða, eins og t.d. ferðaþjónustu, og að því þurfum við að huga. Við þurfum að tryggja að landbúnaðurinn hafi aðgang að öruggu rafmagni, flutningsneti, sterkum innviðum, einfaldara regluverki. Ég er sammála því sem kemur að mörgu leyti fram hér, að landbúnaðurinn, sem og allar aðrar atvinnugreinar, þurfi að geta haldið áfram að vaxa og dafna undir regnhlíf einfaldara regluverks, skýrara regluverks en líka kröfu um gegnsæi. Það þýðir ekki að við séum að gefa einhvern slaka þegar kemur að til að mynda neytendavernd. Það er ekki slaki þegar kemur að því að auka upplýsingagjöf. Þeirri kröfu að hafa einfaldra regluverk fylgir líka gegnsæi og að almennar leikreglur gildi, t.d. samkeppnisreglur.

Það er ýmislegt sem mér finnst gott sem er tæpt á í tillögunni en síðan eru hlutir sem við erum náttúrlega ekki sammála um. Samhliða því að efla og styrkja landbúnaðinn þá þarf landbúnaðurinn, eins og allar aðrar atvinnugreinar, að geta starfað undir ekki bara skýru einföldu regluverki heldur líka stöðugu umhverfi, efnahagsumhverfi. Þar tel ég að krónan leiki sérstakt hlutverk sem leiðir ekki til stöðugleika til lengri eða skemmri tíma, hvorki fyrir landbúnaðinn né aðrar atvinnugreinar. Vel að merkja búa Færeyjar, Noregur, Svíþjóð að hluta til, Norðurlöndin líka við ákveðnar náttúruauðlindir sem þær þjóðir ekki síst hafa umgengist vel en engu að síður hefur íslenskur landbúnaður ákveðið forskot hvað það varðar að við erum með meiri víðerni og stærra svæði til að geta ræktað og komið upp öflugum landbúnaði.

Það eru nokkur atriði sem ég vil undirstrika, ekki bara það að samkeppnin og stöðugleikinn geti skapað ákveðinn kraft inn í landbúnaðinn og það verði byggt á sjálfbærni heldur þarf, eins og ég gat um áðan, í fyrsta lagi að tryggja innviðina. Við vitum alveg hverjir þeir eru. Það verður að fara markvisst í það þannig að það verði raunverulega hægt að tala um að við getum miðlað þessum tækifærum, sóknarfærum, inn í landbúnaðinn, sem við viljum öll þó að okkur geti greint á um leiðir. Okkur greinir ekki á um það t.d. að eitt af markmiðum eigi að vera að efla styrki til landbúnaðarins svo lengi sem við sjáum líka aðrar breytingar samhliða, ekki bara á grunni samkeppni heldur líka því að við aukum frelsi, m.a. frelsi til bænda, frelsi á markaði. Ég held að það skipti miklu máli og við í Viðreisn höfum m.a. lagt það inn í umræðuna að við viljum sjá það samhliða, af því að hér er sagt að styrkir til landbúnaðar séu 16 milljarðar, voru það 2016 þegar búvörusamningur var gerður þegar flutningsmaður var einnig forsætisráðherra, en óbeinir styrkir til landbúnaðarins með tollum og fleiru og með beinum styrkjum eru meira en 30 milljarðar. Við erum reiðubúin til að ræða hvernig við beinum þá þeim óbeinu styrkjum sem felast í tollvernd til að mynda inn í landbúnaðinn sjálfan. Við höfum séð það m.a. með grænmetið. Grænmetis- og garðyrkjubændur eru að kalla eftir því að beinir styrkir verði frekar auknir, eins og við höfum gert að hluta með farsælum árangri. Það er leið sem við sjáum fram á að geti stuðlað að bættum og betri hag, fjölbreyttari tækifærum, eins og við sjáum innan garðyrkjunnar. Við sjáum hvernig tómataræktun hefur þróast, í gegnum mikla nýsköpun á því sviði, yfir í mjög blómlega atvinnugrein sem hefur líka styrkt ferðaþjónustuna. Við sjáum það hjá mjög öflugum fyrirtækjum og garðyrkjubændum, til að mynda á Suðurlandi, að afurðir úr tómatarækt eru byrjaðar að skila bændum meiru en bein sala á tómötunum sjálfum. Þetta er bara dæmi um það sem við getum gert.

Viðreisn átti á kjördæmadögunum fundi með bændaforystunni og við heyrðum mismunandi raddir, bjartsýnar raddir engu síður, en líka ákall um það að við eigum að stíga stór skref í þágu landbúnaðar. Við erum til í það svo lengi sem við fáum líka umræðu um hvað þurfi raunverulega að gera. Ég tel að við eigum að ljá máls á því að auka frekar beina styrki gegn því að fella niður tollvernd. En við erum ekki með því að segja að við ætlum að draga úr kröfum, draga t.d. úr kröfu um upprunamerkingar. Þær þurfa að vera miklu betri. Við megum ekki, til að mynda varðandi framkvæmd tollalaga og innflutning, gefa það eftir að þeir sem eru að flytja inn landbúnaðarafurðir séu að leika sér að kerfinu. Það er algjörlega óviðunandi hvort sem það tengist landbúnaði eða öðrum atvinnugreinum. Á því eigum við sjálf að geta tekið án þess að ógna eða ræða um það að við þurfum að segja upp tollasamningum sem við höfum gert.

Hér er til að mynda rætt um að segja upp tollasamningi frá 2015 og við getum alveg tekið umræðu um það. En þá vil ég á móti spyrja: Hver eru samningsmarkmið okkar Íslendinga? Hver hafa þau verið af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra eða utanríkisráðherra í samskiptum við Breta? — Ég á aðeins 33 sekúndur eftir en er rétt að byrja, er í formála. — Hvað er það til að mynda sem Bretar hafa sett fram í viðræðum sínum við Íslendinga þegar kemur að tollamálum og samskiptum varðandi landbúnaðarafurðir? Ég held að það skipti mjög miklu máli í samhengi við þessa kröfu um að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið því að við eigum fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni Íslendinga og ég er ekki endilega sannfærð um að þetta sé leiðin.

Ég vil biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég ætla að koma inn á nokkur atriði, (Forseti hringir.) m.a. varðandi menntamálin í tengslum við landbúnaðinn, Garðyrkjuskólann sem ég vil gjarnan ræða, (Forseti hringir.) afurðastöðvarnar sem ég myndi líka koma inn á og fleiri þætti sem ég held að sé (Forseti hringir.) auðveldlega hægt að breyta í þágu öflugs íslensks landbúnaðar.