151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa áhugaverðu umræðu. Mig langar bara að segja örfá orð varðandi þessa þingsályktunartillögu. Í fyrsta lagi er margt jákvætt í henni. Þessi aðgerðaáætlun er í mörgum liðum og ég fagna sérstaklega að það sé verið að ræða hér með víðtækum hætti hvernig við getum eflt innlenda matvælaframleiðslu. Að sjálfsögðu er margt þarna sem ég get ekki tekið undir og ég ætla svo sem ekkert að fókusera á það. Þarna er t.d. talað um að tryggja framtíð loðdýraræktar sem ég, ef ég tala fyrir mig, tel vera tímaskekkju. Sömuleiðis er minnst á svokallað blóðmerahald, sem mér finnst sömuleiðis einnig vera tímaskekkja. Fyrr í vetur var ég með fyrirspurn um blóðmerahaldið en bara svo menn viti hvað það er þá er það svolítið sérstök praxís hér á landi, hefur reyndar verið gerð í um 40 ár, en þá er tekið blóð úr fylfullum hryssum til að ná sérstöku hormóni úr þessum hrossum og síðan er hormónið notað til að breyta gangmáli svína. Þetta er iðnaður, ef iðnað skyldi kalla, sem hefur tíðkast í talsverðan tíma hér á landi en mér finnst þetta vera fullkomin tímaskekkja og í mörgum löndum hefur þetta einfaldlega verið bannað. Það er kannski svolítið önnur umræða en engu að síður langar mig að vekja athygli á því að í þessari þingsályktunartillögu er talað m.a. um að auka við þennan iðnað, að nýta merablóð í þessum tilgangi, sem er umdeilanlegur. Samkvæmt svari sem ég fékk frá landbúnaðarráðherra fyrr í vetur eru 5.000 hryssur á Íslandi nýttar í þessum tilgangi.

Ég ætlaði að fókusa á það sem ég er sammála í þessari ágætu þingsályktunartillögu. Það er margt þarna jákvætt eins og áhersla á menntun, nýsköpun, lífræna framleiðslu og skógrækt. En mig langar að nefna í þessari stuttu ræðu minni grænmetisframleiðsluna. Ég held að hér getum við sameinast öll um það, hvort sem er til vinstri, hægri eða á miðju, að við getum gert miklu betur í að styðja við innlenda grænmetisframleiðslu. Ísland hefur í raun einstakt tækifæri til að vera í fremstu röð í grænmetisframleiðslu. Ef til vill kemur það fólki á óvart þegar það skoðar landakort, hvar við erum í heiminum, en það er einmitt staða Íslands á landakortinu sem gerir þennan möguleika svo fýsilegan og mögulegan. Heimili okkar Ísland er nefnilega fullt af vatni, köldu og heitu og orkan er næg en hún er hins vegar of dýr fyrir grænmetisbændur. Eftirspurn eftir heilnæmu grænmeti, ávöxtum og korni hefur aukist mikið um allan heim og mun aukast verulega á næstu árum. Því er hér á ferðinni alveg dauðafæri fyrir Ísland að gera miklu betur þegar kemur að grænmetisframleiðslu á Íslandi og grænmetisbændum. Þetta tækifæri er einstakt og nýtir kosti Íslands á sjálfbæran hátt. Þetta er atvinnuskapandi, mætir breyttri neysluhegðun og er umhverfisvænt á tímum loftslagsbreytinga.

En til að hægt sé að nýta þetta tækifæri þá þurfa stjórnvöld að koma að uppbyggingunni með auknum opinberum stuðningi. Það er það sem ég les m.a. úr þessari tillögu Miðflokksins, þau eru að kalla eftir því. Við þurfum að lækka verð á rafmagni og draga úr flutningskostnaði og öðrum kostnaði. Slíkur stuðningur þarf að sjálfsögðu að vera gagnsær og almennur en umfram allt myndarlegur. Í hagfræðinni höfum við mikla trú á hinum svokölluðu hagrænu hvötum en hér á landi vantar þá í mun meira mæli þegar kemur að hinu græna og væna.

Þessa dagana og misserin er verið að búa til fjármálaáætlanir fyrir hið opinbera og við erum að ræða fjármálaáætlun til fimm ára sem er upp á yfir 5.000 milljarða og í eitthvað fara þessir peningar næstu fimm árin. Þess vegna held ég að þetta sé einmitt tíminn til að koma með framsæknar hugmyndir, ekki síst í atvinnumálum, sem taka mið af framtíðinni en ekki fortíðinni. Ég kalla eftir því úr þessum stól að umfangsmikil grænmetisframleiðslu hér á landi ætti að vera hluti af skilgreindri atvinnustefnu hins opinbera. Hún ætti líka að vera hluti af vel skilgreindu fjárfestingarátaki stjórnvalda. Þetta á ekki að vera smátt hliðarverkefni sem fær svona að fljóta með þegar ráðherrarnir muna eftir því. En það hefur hingað til allt of oft verið hlutskipti grænmetisframleiðslu á Íslandi. Grænmetisbændur á Íslandi hafa mætt afgangi.

Nýverið var tilkynnt um áætlun stjórnvalda að auka framleiðslu á grænmeti um 25% á þremur árum. Það voru settar litlar 200 milljónir til viðbótar við þær 600 sem fara í framleiðslu garðyrkjuafurða.

Herra forseti. Þetta er einfaldlega allt of lítið og metnaðarlaust eins og margt annað sem kemur frá þessari ríkisstjórn. Við eigum að setja miklu hærri markmið, t.d. að fjórfalda grænmetisframleiðslu hér á landi í stað þess að auka hana einungis um fjórðung eins og vilji stjórnvalda er. Hér eigum við að hugsa stórt og það borgar sig til baka í atvinnusköpun og aukinni framleiðslu á heilnæmu og sjálfbæru fæði.

Þær 200 milljónir sem ríkisstjórnin setti til viðbótar við grænmetisframleiðsluna er svipuð upphæð og þessi sömu stjórnvöld setja í styrki til fiskvinnslustöðva á hverju ári. Þetta er einungis einn tíundi af því sem ríkisstjórnin setur í varnarmál á hverju ári. Það renna hins vegar 12 milljarðar frá almenningi í nautgripa- og sauðfjárrækt á hverju ári og er því stuðningurinn fyrir garðyrkjuafurðir einungis 5% af þeirri upphæð. Hvað er grænt við það, herra forseti?

Ég tel það mjög mikilvægt að búvörusamningar framtíðarinnar snúist um hið græna frekar en hið ferfætta. Það eigi að vera langtímamarkmið okkar. Að sjálfsögðu mun vera hefðbundinn landbúnaður áfram, ég átta mig alveg á því. Ég er bara að varpa ljósi á blússandi sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað sem byggist á nýsköpun, byggist á metnaði þegar kemur að grænmetisframleiðslu, sem tekur mið af breyttri neysluhegðun og loftslagsbreytingum. Við þurfum að hjálpa íslenskum bændum að breyta framleiðslu sinni í þessa átt, kjósi þeir svo. Við eigum að styðja við fleiri nýja bændur sem starfa í hinum græna framleiðsluheimi.

Nú eigum við aftur að hugsa stórt, sérstaklega á þessum tíma. Ísland á að vera útflytjandi á garðyrkjuafurðum frekar en innflytjandi. Ísland er útflytjandi á hinum besta fiski í heimi. Við erum matvælaland þegar kemur að fiski, við erum á heimsmælikvarða á sviði sjávarútvegs, en takið eftir því að íslenskur fiskur er dýr erlendis. Þetta er dýr og góð vara erlendis. Þess vegna varpa ég fram þeirri hugmynd: Af hverju nálgumst ekki íslenskt grænmeti með sama hætti? Af hverju stefnum við ekki að því að hafa það í fyrsta flokki? Og það má vera dýrt og fara á dýra markaði úti í heimi. Við eigum ekki að nálgast þessa hugmynd með því markmiði að gera gúrkurnar eins ódýrar og hægt er. Nei, hugsum aðeins út fyrir boxið. Það eru til svo fjölmargar grænmetistegundir, ávaxtategundir, þörungar og annað slíkt sem við getum skoðað og ræktað hér á landi. Höfum þetta vöru sem nær inn á framleiðna og mikilvæga markaði. Hugsum eins og sjávarútvegurinn gerði. Förum á „high end“, ef ég má sletta, herra forseti, markaði sem kalla eftir góðum og heilnæmum grænmetisafurðum. Þetta er sóknarfæri sem við eigum að tala fyrir. Við eigum að útvíkka, herra forseti, þessa hugmynd um Ísland sem matvælaland, sem við erum á vettvangi sjávarútvegs, og láta hana ná til grænmetisframleiðslunnar. Því að grænmetisrækt þarf í rauninni ekki mikið. Það þarf auðvitað orku og hún þarf að vera á viðráðanlegu verði. Við þurfum jarðvarma, ylrækt og vatn og af þessu eigum við allt, herra forseti.

Það er blússandi tækifæri, ekki síst á tímum eins og núna. Nú þarf að skapa atvinnu. Atvinnuleysi er helsta áskorun Íslands í dag. Um 20.000 Íslendingar eru atvinnulausir og stefnir í kannski 25.000–30.000 næstu jól. Nú þarf hið opinbera að koma miklu myndarlegar inn á svo mörgum sviðum. Þetta getur verið eitt púsl í púsluspilinu. Veðjum á grænmetisframleiðsluna. Við höfum allt sem til þarf, en hið opinbera þarf að koma að með myndarlegri hætti en það gerir núna. Þetta má ekki vera eitthvert punt eða hliðarverkefni eins og oft virðist vera af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Gerum þetta að einum af hornsteinum íslenskrar atvinnustefnu þegar kemur að landbúnaði. Veðjum á grænmetisframleiðslu. Það mun skila sér í góðum vörum, í fjölbreyttara atvinnulífi.

Ég ítreka, herra forseti: Stundum kostar peninga að búa til peninga. Það kostar að hugsa stórt en það borgar sig og það er skynsamlegt. Fjórföldum íslenska grænmetisframleiðslu. Það er skynsamleg hugmynd, ekki bara að auka hana um einn fjórða eins og metnaður ríkisstjórnarinnar ber vitni um. Það eina sem hindrar okkur í þessum leiðangri er metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu sem við erum í og sá vöxtur á að vera grænn og vænn og það er ekki verra ef við getum borðað hann.