151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

[14:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það er þá gott að hafa fengið á hreint að það er ekki stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að opna landið frekar fyrir útlendingum utan Evrópu. Það einfaldar síðari spurningu mína. Ég get þá lagt til hliðar þessar atvinnuleyfispælingar og rætt við hæstv. barnamálaráðherra um tengt mál sem er hagsmunir barna á flótta. Þar eru svo mörg rauð flögg að ráðherrann hlýtur að þurfa að bregðast við. Reglulega, enn og aftur, berast okkur fréttir af því að hagsmunir barna séu ekki metnir sjálfstætt þegar þau sækja um alþjóðlega vernd heldur er byggt á hagsmunum foreldra þeirra. Við höfum fengið svör frá dómsmálaráðherra um að það séu tekin viðtöl við innan við helming barna í umsóknum um alþjóðlega vernd. Þar að auki hafi foreldrar hreinlega forræði yfir því hvort tekið sé viðtal við börnin. Ég spyr ráðherrann hvort það geti í alvöru verið þannig að barnasáttmálinn sé valkvæður og háður því hvað foreldra barnanna segja þegar kemur að þessum hópi (Forseti hringir.) og í ljósi þess líka að greining á stuðningsþörfum fatlaðra flóttabarna er með miklum ólíkindum og ekki sinnt nógu vel. Hvernig tryggir félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) að barnasáttmálinn sé yfir höfuð virtur þegar kemur að hagsmunum barna á flótta?