151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

framlög til lífeyrisþega.

[14:03]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði svarað því til hér áðan að þessi 1,1 milljarður væri vegna endurskoðunar á kerfinu, vegna þess að við hefðum eyrnamerkt ákveðna fjárhæð á fjárlögum yfirstandandi árs og við verðum að nýta þá fjármuni. Það var gríðarleg leiðrétting innan kerfisins gagnvart eldri borgurum hér á sínum tíma, þegar innleitt vnýtt kerfi, og talað var um að örorkulífeyrisþegar hefðu orðið eftir. Við ætluðum að fara í ákveðna kerfisbreytingu þar en við náum ekki að stíga hana með jafn miklum krafti og ætlunin var, en við erum engu að síður að nota fjármagnið sem eyrnamerkt er í það þannig að það er vel.

Gagnvart eldri borgurum höfum við komið fram með frumvarp sem lýtur að því að koma sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana sem eru á strípuðum bótum …(Gripið fram í.) — Það koma desemberuppbætur til eldri borgara rétt eins og örorkulífeyrisþega, atvinnuleitenda og annarra. Við erum með almennar desemberuppbætur. Síðan kemur þetta álag vegna þess að þessir fjármunir voru til handa örorkulífeyrisþegum og eyrnamerktir þeim hópi. Það hélt ég að ég væri búinn að útskýra og hv. þingmaður og fleiri hafa rekið á eftir því við ráðherra að þeim fjármunum yrði komið í vinnu. (Forseti hringir.) Það erum við að gera núna. Við erum að koma þeim í hendur þeirra sem þeir voru svo sannarlega eyrnamerktir. Því ættum við að geta fagnað, hv. þingmaður.(Gripið fram í.)