151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

útflutningur á óunnum fiski.

[14:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í efnahagslegum niðursveiflum er mikilvægt að huga að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn er einn af grunnatvinnuvegunum og skiptir okkur verulegu máli, ekki síst nú þegar stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrundi nánast á einni nóttu. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum, eins og við þekkjum, og á enn eftir að hækka. Í Reykjanesbæ er það komið í 22%. Staðan í atvinnumálum er alvarleg. En hvað getum við gert tiltölulega hratt til að bæta ástandið?

Herra forseti. Ég tel að sjávarútvegurinn skipti þar miklu máli. Margar fiskvinnslur hafa ekki úr nægu hráefni að spila. Á íslenskum fiskmörkuðum er ekki nægilegt framboð á hráefni og eiga fiskvinnslur sem ekki eru í útgerð í basli með að halda uppi vinnu og vinnslu. Á sama tíma er flutt úr landi umtalsvert magn af óunnum fiski sem vel væri hægt að vinna hér á landi. Aukningin frá því í fyrra er 22% og stefnir í að flutt verði út um 60.000 tonn af óunnum fiski á þessi ári. Ef við myndum vinna þennan afla hér heima næmu verðmætin allt að 10 milljörðum kr. og ný störf gætu verið allt að 1.000. Árið 2014 voru flutt út 23.000 tonn. Þá voru hömlur á útflutningi sem síðan voru afnumdar. Eftir það hefur orðið stöðug aukning í útflutningi á óunnum afla.

Herra forseti. Við verðum að nýta öll úrræði sem til eru til að halda uppi atvinnu í landinu. Atvinnuleysi er samfélagsleg meinsemd og kostar ríkissjóð háar fjárhæðir. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að beita einhvers konar hvötum til að auka fiskvinnslu hér á landi og draga úr útflutningi á óunnum fiski.