151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að það sé augljóst að víkja þarf til hliðar fjármálareglunum í lögum um opinber fjármál. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og stjórnarliðar settu sér fjármálastefnu í upphafi eins og lögin gera ráð fyrir. Hún var gagnrýnd harðlega af fjármálaráði fyrir að lítið mætti út af bera til að henni yrði stefnt í voða. Í ljós kom að með loðnubresti og við fall WOW þurfti að víkja frá þeirri stefnu og setja nýja. Það var gert og nú er það þá þriðja stefnan sem ríkisstjórnin setur sér á þremur árum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að þessar aðstæður sýni að ekki sé skynsamlegt að vera með sérstakar fjármálareglur bundnar í lögum. Þessi atburðarás öllsömul, sem enginn gat auðvitað séð fyrir, sýnir að ekki er gott að reglurnar séu settar í lög. Ég vil líka spyrja hv. þingmann um það, þegar talað er um að 7. gr. eigi að fara aftur í gang árið 2026, hvort það sé þá upphafsárið og þá sé hægt að horfa á að niðurstaðan verði jákvæð hjá ríkissjóði yfir fimm ára tímabil, frá árinu 2026 til 2031. (Forseti hringir.) Eða hvernig er þetta hugsað?