151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um nýsköpun og breytingar á tilhögun þar og það hafa komið fram ansi djarfar tillögur um breytingar í því máli sem snertir opinberan stuðning við nýsköpun og tæknirannsóknir. Ég ætla aðeins að fara yfir áhyggjur mínar í þeim efnum hvað byggingarrannsóknir snertir. Við höfum rætt þetta mál og skyld mál hér saman í þingsal, ég og hæstv. ráðherra. Ég er enn tvístígandi þegar kemur að breytingunum því ég lít svo á að byggingarrannsóknirnar sem hafa verið í gangi hjá Nýsköpunarmiðstöðinni séu eins konar grunnrannsóknir í samfélagsþágu. Þau snúast m.a. um hina, mér liggur við að segja eilífu myglu sem hrjáir húsnæði og svo t.d. um steinsteypurannsóknir og steinsteypuþróun sem hefur verið mjög merkileg, jafnvel á heimsvísu.

Ég er í sjálfu sér feginn að sjá að ef verður af þessum breytingum, að fella niður Nýsköpunarmiðstöð, verði byggingarrannsóknirnar vistaðar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það er til bóta miðað við að þær væru nánast munaðarlausar ef þær væru eingöngu hjá einkaaðilum. En fjármögnun er þegar allt kemur til alls lykillinn að byggingarrannsóknum á landsvísu og þá er spurning um hversu vel samkeppnissjóðir geta séð um þessa fjármögnun, sinn hluta, því að þeir sjá aðeins um hluta af fjármögnun. Þegar um er að ræða opinbera aðila er það 80% og þegar um er að ræða verkfræðistofur er það 65%. Það finnst mér kalla á mjög mikinn stöðugleika í grunnrannsóknum eða fjármögnun þeirra, með ríkisframlögum hreinlega. Mestu fjármunir landsmanna eru fólgnir í byggingum og það þarf að standa vel að rannsóknum sem tengjast þeim.

Það sem ég á hér við nokkurn veginn er að það sé trygg fjármögnun fyrir það sem ég kalla stofnrannsóknir, eins og myglurannsóknirnar eru, og samfellu í starfi. Það séu ekki eingöngu bylgjur sem ganga í takt við úthlutanir samkeppnissjóða heldur sé samfella í því starfi og einnig trygg fjármögnun fyrir samhæfingu og samvinnu innan þessa stóra geira sem byggingarrannsóknir eru. Það eru, eins og allir vita, bæði háskólar og verkfræðistofur sem koma þar inn í. Mér finnst þurfa að vera þar einhver samhæfingaraðili og það á að vera þessi deild innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hún getur starfað með áætlunargerð og tillögum og ráðstefnum og að eigin rannsóknum, að sjálfsögðu, og tryggja þá um leið að grunnupplýsingar séu til reiðu á netinu og með öðrum hætti, þ.e. ritröð handbæklinga og alls konar upplýsingar sem skipta máli varðandi þessar rannsóknir. Þetta er það sem ég vil segja um byggingarrannsóknir.

Svo komum við að því sem gengur undir gælunafninu Eló, hjá Nýsköpunarmiðstöðinni, en það er Efnis-, líf- og orkutækni. Það hefur verið til skamms tíma, eftir því sem ég best veit, 15, 16, 17 manna vinnustaður og þeirra hlutverk er að styðja við mikilvægar grunnrannsóknir, stunda hluta af þeim jafnvel og taka þátt í þróunarverkefnum í samvinnu við fyrirtæki sem leitað hafa til þeirra. Þetta er þá hluti af nýsköpun. Mig langar bara að benda á eitt verkefni sem ég hef komið nálægt sjálfur, sem er að vinna mjög dýrmætar og merkilegar basalttrefjar úr íslensku grjóti sem gæti verið efni í mjög merkilegan iðnað á Íslandi. Í líftækninni hafa verið rannsóknir, t.d. hvað varðar lífhagkerfi svokölluð og í orkutækni hafa verið rannsóknir og vinna sem tengist orkuskiptum. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að rekja þetta frekar, en það sem mér gengur til, herra forseti, með þessu tali er að þarna vil ég meina að nýtt fyrirtæki í meiri hluta eða fullri eigu ríkisins tryggi ekki sjálfkrafa þessa starfsemi og fjármagn til hennar. Samkeppnissjóðirnir skipta vissulega máli hér eins og varðandi byggingarrannsóknir, en það er spurning hvort styrkhlutfall til svona ohf.-fyrirtækja hafi ekki sýnt að það sé örugglega lægra en til ríkisstofnana. Ég efast um að samkeppnissjóðirnir líti þessi tvö ólíku form, þ.e. hreina ríkisstofnun og ohf.-fyrirtæki sömu augum og það sé töluverð hætta á því að svona ohf.-stofnun, ekki fyrirtæki svo að ég segi nú rétt frá, hafi minni möguleika á styrkjum hjá samkeppnissjóðunum en öflug ríkisstofnun.

Svo er það að alþjóðastyrkir ganga síður til ohf.-fyrirtækja en ríkisstofnana. Það er einfaldlega vegna þess að það er fyrirsjáanlega veik eiginfjárstaða, litlar eignir og lítið eigið fé sem tilvonandi tæknistofnun mun hafa, eðlilega. Þannig að ég spyr einfaldlega: Má ekki endurskoða þetta fyrirkomulag aðeins betur og hafa samvinnu við hagaðila og háskóla og fagfólkið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að ná betur utan um fjármálahlið þessara rannsókna? Hún er mjög mikilvæg. Auðvitað geta og munu einkafyrirtæki og háskólarnir o.s.frv. áfram stunda svona rannsóknir en á sama hátt og með byggingarrannsóknirnar finnst mér vanta kjölfestuna.

Svo er það ráðgjöfin til frumkvöðla. Ég vil benda á að þar er eitt og annað sem vekur spurningar, m.a. ef einkaaðilar eiga að sinna ráðgjöf til frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skref, þá er spurning hvort verð hjá einkaaðilunum fæli ekki þessa frumkvöðla frá því að taka fyrstu skrefin. Nýsköpunarmiðstöð hefur fengið allt að 1.000 fyrirspurnir um frumkvöðlaverkefni, við skulum orða það þannig, á hverju ári. Það hefur oft verið minna en nálgast þessa tölu, allt að 1.000. Það bendir til þess að það sé nauðsyn að hafa bakhjarl fyrir fyrstu skref sem er mjög ódýr eða ókeypis. Það er það sem ég er að reyna að segja. Mér finnst ríkið geta tryggt það og spyr einfaldlega: Er það ekki svo? Er einhver mótsögn í því að ákveðinn hluti þessarar ráðgjafar verði áfram í höndum ríkisins? Ég tel ekki svo vera.

Þá vil ég líka benda á það að mér finnst ekki skýrt hvað verður um skipulag frumkvöðlaaðstoðar um landið allt. Þetta er jú mikilvæg byggða- og atvinnustefna eins og við vitum. Ég get varpað fram spurningum eins og hver verði tengsl við þekkingarsetur, sem eru til um allt land. Væri ekki hægt að skýra það betur, búa fyrir fram til tillögu að skipulagi um hvernig samhæfingu og aðstoð við frumkvöðla um allt land verður háttað? Það þarf líka að tryggja að það verði samhæfing og tenging við frumkvöðlasetur atvinnulífsins því þau eru orðin nokkur. Það er búið að stofna frumkvöðlasetur á Íslandi. Það þarf að vera einhvers konar samhæfing og tenging milli þeirra og það gæti verið í höndum þeirra aðila sem myndu sjá um aðstoð við frumkvöðla á fyrstu skrefum.

Þetta er sumt af því sem ég hef áhyggjur af. Ég verð að segja, herra forseti, að ég er að viðra mínar áhyggjur úr ræðustól og um leið ansi margra sérfræðinga sem hafa verið í sambandi við mig, líka í ljósi þeirrar nýsköpunarstefnu sem við getum hreykt okkur af að hafi verið sett í fyrsta sinn og er framsækin að mínu mati.

Þegar allt kemur til alls eru tvær leiðir núna fram undan. Það er að endurvinna þetta frumvarp í ráðuneytinu að einhverju leyti með nægilegu samráði eða að þingnefnd, hv. atvinnuveganefnd, leggi verulega mikla vinnu í það að skýra ýmislegt í þessu frumvarpi. En hvor leið sem farin verður finnst mér það verða að leiða fyrirsjáanlega — ég nefni orðið fyrirsjáanlega — til þess að tæknirannsóknir og nýsköpun á Íslandi eflist mjög því að við höfum mikla þörf fyrir það í íslensku samfélagi núna, hvort sem við tölum um fyrir eða eftir Covid. Það finnst mér vera verkefni okkar í þinginu að tryggja.